Vef-Þjóðviljinn skrifar um íbúðalánasjóðina bandarísku og björgunaraðgerðir stjórnvalda vestra. Á framhjáhlaupi er Barney Frank nefndur til sögunnar og hann sagður hluti af „villta vinstrinu“.
„Villta vinstrið“ er þekkt hugtak í stjórnmálum. Sjálfur þekki ég fjölda fólks sem fellur undir þessa skilgreiningu hér heima. En merkilegt finnst mér þó að lesa pólitískt vefrit á Íslandi (þótt hægrisinnað sé) sem lítur á Barney Frank sem últra-vinstrimann.
Höfum í huga að Barney Frank hefur verið þingmaður á Bandaríkjaþingi um langt árabil – sem eitt og sér setur því skorður hversu mikill vinstri róttæklingur hann getur verið.
Barney Frank þykir reyndar sér á báti í bandarískum stjórnmálum fyrir þá sök að hann er yfirlýstur hommi – og það sem meira er, heldur kynhneigð sinni á lofti og gantast með hana. Það gerir hann vitaskuld mjög sérstakan í pólitíkinni vestanhafs, en ætti varla að fara fyrir brjóstið á íslenskum frjálshyggjumönnum.
Og jú – Barney Frank er hlynntur því að notkun á kannabis verði heimiluð í lækningaskyni… sem gerir hann að anarkista í sumum bandarískum kreðsum – en ætti heldur ekki að stuða íslenska frjálshyggjumenn, sem daðra sjálfir við frjálslyndi í þessum efnum.
Ef rennt er yfir ferilskrá Barney Franks á Wikipediu má sjá hvaða málefni hans hafa vakið harðastar deilur:
* Hann hefur staðið gegn öllu því sem hann telur skerðingu á tjáningarfrelsi, þar á meðal banni við pólitískum mótmælum í tengslum við útfarir hermanna.
* Hann styður fjárhættuspil á netinu.
* Hann hefur látið hafa eftir sér að of mikill ójöfnuður í samfélaginu sé skaðlegur.
Á síðu þingmannsins má lesa um fleiri málefni sem maður getur svo sem skilið að tryggi honum engar vinsældir meðal hægrimanna í BNA.
* Hann er á móti því að allir þeir sem komi til BNA frá Kúbu fái sjálfkrafa bandarískan ríkisborgararétt.* Hann er ekki á móti því að Kínverjar fái að vera með í WHO, alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.
* Hann er á móti hvalveiðum Japana.
* Hann er á móti símhlerunum án samþykkis dómara.
* Hann vill draga herinn út úr írak.
Gott og vel. Barney Frank virðist við lauslega athugun í hópi vinstrisinnaðari þingmanna í BNA – en nákvæmlega hvað í skoðunum hans veldur því að Vef-þjóðviljanafnleysingjarnir fella hann undir flokkinn „villta vinstrið“? – Það væri gaman að vita.Â