Það er kreppa. Allir eru súrir og hvekktir. Grísirnir á leikskólanum eru meira að segja með pirraðra móti.
Við aðstæður sem þessar er gott að geta gripið til ópíums fólksins – fótbolta.
Ef það væri ekki kreppa, myndi ég gefa skít í Hörpu Sjafnar-bikarkeppni neðrideildarliða. Núna er hins vegar kreppa og þá er allt hey í harðindum – meira að segja labbakútabikarkeppnir.
Á kvöld tók Luton sem sagt á móti Brentford í málningarbikarnum. Lentum 0:2 undir, en jöfnuðum og unnum að lokum í vítakeppni. Erum þar með komnir í átta liða-úrslit Suðurlandskeppninnar. Sigurvegarinn af suðursvæðinu mætir norðanmönnum í úrslitaleik. (Ætli sá úrslitaleikur muni fá fimm blaðsíður í Mogganum eins og þegar Stók vann keppnina undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar?)
Ég hef áður lýst því hversu kleyfhuga maður er gagnvart svona smámótum. Augljóslega hefur það ýmsa kosti að falla úr keppni – það léttir af leikjaprógraminu, minnkar líkur á meiðslum o.s.frv. En á hinn bóginn er aldrei gaman að tapa. Og þegar sigrar vinnast í Mikka mús-bikarleikjunum er alltaf hægt að benda á að það stappi stálinu í mannskapinn, sem fái blod pí¥ tanden o.s.frv…
En við erum a.m.k. komnir áfram. Þá er bara að vonast eftir öðrum heimaleik næst.
# # # # # # # # # # # # #
Á ég að hafa skoðun á mögulegri sameiningu Fram og Fjölnis? Tja – reynslan segir mér að anda með nefinu. Fram hefur íhugað alvarlega sameiningu við önnur félög í u.þ.b. tíu skipti á síðustu tuttugu árum.
Fram og Fjölnir yrðu auðvitað gríðarstórt félag á samanlögðu. Mér finnst þó merkilegt ef borgin sér í raun og veru fram á að láta eitt íþróttafélag þjónusta það sem verður u.þ.b. 35% borgarbúa – en láta sjö til átta félög (eftir því hvernig er reiknað) sjá um hin 65%.
# # # # # # # # # # # # #
Evran er mörgum hugleikin.
Það er einkum eitt sem böggar mig við evrustuðningsmennina. Það er hentistefnan.
Núna er fjármálakreppan – sem augljóslega má fyrst og fremst rekja til bankanna – aðalrökin fyrir að taka upp evru, hún sé tæki til að bremsa af óðar bankastofnanir. Gott og vel, ef menn geta fært fyrir því skynsamleg rök er sjálfsagt að hlusta.
En gallinn er að ansi mörg andlit í kórnum er sama fólkið og talaði um það yrði að taka upp evru vegna þess að fjármálakerfið og bankarnir krefðust þess. Þá var hamrað á að Íslendingar væru orðnir bankaþjóð og að bankastarfsemi gæfi meira af sér en fiskveiðar.
Ef mikilvægi fjármálageirans umfram sjávarútveginn átti að vera rök fyrir því fyrir tveimur árum að við ættum að ganga í ESB – hlýtur þá ekki hið gagnstæða að gilda núna? Úr því að Ísland er aftur farið að snúast um fisk – eigum við þá ekki að láta þá hagsmunaaðila ráða þessu?