Það er langt síðan ég hef lesið grein á pólitísku vefriti sem hefur komið mér í verulega gott skap. Ég hins vegar búinn að skemmta mér konunglega yfir grein dagsins á Deiglunni. Hún byrjar á greinargóðu yfirliti yfir sögu íslenskra mótmæla:
„Íslendingar hafa í gegnum tíðina ekki verið miklir mótmælendur í sér. Vissulega eru dæmi þess og má þar nefna hin afar ólíku tilfelli: Gúttóslaginn ’32, mótmæli vörubílstjóra nú á árinu og mótmæli Sambands ungra sjálfstæðismanna við aldurstakmörkunum á tjaldsvæðum Akraness í tengslum við írska daga á þessu ári. Gúttóslagurinn sneri að ofbeldisfullum mótmælum þegar lækka átti laun vegna atvinnubótavinnu og lágu fjölmargir lögreglumenn særðir eftir á. Mótmæli vörubílstjóra voru í tilefni hás bensínverðs og fóru aðallega fram með því móti að vörubílar tepptu umferð víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Mótmæli SUS fóru fram þannig að hópur ungra sjálfstæðismanna fór til Akranesbæjar, gáfu forseta bæjarstjórnar bol og lásu upp yfirlýsingu þar sem háttsemi bæjarstjórnar var hörmuð. Merkilegt nokk þá báru síðastnefndu mótmælin skjótan árangur – án þess að neinn bæri skaða af.“
– Óborganlegt!
Næst bíð ég eftir samantekt Deiglunnar á sögu íslenskra veislna og mannamóta. Það yrðu væntanlega: dansinn í Hruna, konungskoman 1907 & litlujólin hjá Heimdalli árið 2004, þegar Þórlindur lék jólasveininn og öll börnin dönsuðu í kringum hann.