Byrja jólin í friðargöngunni á Þorláksmessu? Ég er ekki fjarri því.
Mér sýnist gönguhorfur vera góðar. Samkvæmt spánni verður vindur og ofankoma frameftir degi og svo aftur í kvöld – en dettur niður undir kvöldmat og helst fínt meðan á göngu stendur.
* * *
Þorláksmessa var líka vettvangur frægra átaka fyrir sléttum fjörutíu árum. Á Mogganum í dag skrifar gamall lögreglumaður grein sem lýsir Þorláksmessuslagnum sem einhverri hryllilegustu upplifun lífs hans, þar sem hann hafi gengið um göturnar og búist við að sjá afslitna líkamshluta (en raunar ekki fundið).
Reyndar tekst honum ekki að tína til mörg áþreifanleg atriði um ofbeldið. – Nema þá helst að einn lögreglumaðurinn hafi lamið félaga sinn í hausinn með kylfu. Það var augljóslega róttæklingunum að kenna.