Menn hafa verið að lesa eitt og annað í misvísandi yfirlýsingar ráðherra Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar varðandi ástandið á Gaza. Við fyrstu sýn kann að virðast ótrúlegt eftir allt sem á undan er gengið, að afstaðan til ísraelsríkis yrði sérstakur ásteytingarsteinn í ríkisstjórnarsamstarfinu.
En hér er þó rétt að huga að sögunni.
Steingrímur Hermannsson hefur sagt frá því opinberlega, að í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar hafi komið til tals að Steingrímur hitti Arafat leiðtoga Palestínumanna. Þá hafi formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnt að slík heimsókn myndi varða stjórnarslitum.
Slíkar hótanir eru afar fátíðar hjá Sjálfstæðismönnum og ekki settar fram í hálfkæringi. Enginn skyldi vanmeta hversu alvarlega sumir ísraelsvinirnir í Sjálfstæðisflokknum taka málið.