Samanburður á 30.mars 1949 og mótmælum síðustu daga er fyrirferðarmikill í fjölmiðlum. Svo sem ekki skrítið – vettvangurinn er sá sami og í báðum tilvikum léku menn með skildi, hjálma og táragas/úða stórt hlutverk. Hitt er svo annað mál hversu raunhæfur samanburðurinn er að öðru leyti.
Vísanir í sögulegar fyrirmyndir er raunar vinsælli á fleiri sviðum. Hópur fólks er t.d. farinn að safna undirskriftum til að heimta utanþingsstjórn. Reyndar sjá aðstandendur ekki sérstaklega ástæðu til að tiltaka hvernig sú utanþingsstjórn yrði samansett – bara að það sé utanþingsstjórn… Eins og það sé algjört aukaatriði hvort dómsmálaráðherrann yrði Gísli Valdórsson eða Siggi pönk.
Og það vantar svo sem ekki að bent sé á sögulega fordæmið: utanþingsstjórnina 1942-44.
Á huga mínum sem sagnfræðings er þetta sérkennilegt val á stórn til að taka eftirdæmi af. Ætli utanþingsstjórnin sé ekki almennt álitin slappasta ríkisstjórn Íslands á tuttugustu öld? Að miklu leyti snerist hún um að skara eld að sinni köku. Þessi ríkisstjórn heildsala og fulltrúa Sambandsins var stefnulaus og verklítil.
Valdaseta utanþingsstjórnarinnar var ágæt staðfesting á niðurlægingu Alþingis – en því fer svo víðsfjarri að hún hafi á nokkurn hátt verið sameiningarafl eða stuðlað að því að lægja öldur í þjóðfélaginu. Eða er það ekki plottið með hugmyndinni?
Hver á að vera Vilhjálmur Þór í nýju utanþingsstjórninni? Finnur Ingólfsson? (Hann passar nú eiginlega best í hlutverkið…)
Auðvitað þarf arfleið utanþingsstjórnarinnar 1942-44 ekki að segja neitt um það hvernig utanþingsstjórn árið 2009 myndi reiða af. Slík stjórn gæti jafnvel plumað sig ágætlega ef vel tekst til. En stuðningsmenn hugmyndarinnar ættu þó að stilla sig um að benda á einverja slöppustu ríkisstjórn 20.aldar sem leiðarljós sitt.