Sögulegar fyrirmyndir

Samanburður á 30.mars 1949 og mótmælum sí­ðustu daga er fyrirferðarmikill í­ fjölmiðlum. Svo sem ekki skrí­tið – vettvangurinn er sá sami og í­ báðum tilvikum léku menn með skildi, hjálma og táragas/úða stórt hlutverk. Hitt er svo annað mál hversu raunhæfur samanburðurinn er að öðru leyti.

Ví­sanir í­ sögulegar fyrirmyndir er raunar vinsælli á fleiri sviðum. Hópur fólks er t.d. farinn að safna undirskriftum til að heimta utanþingsstjórn. Reyndar sjá aðstandendur ekki sérstaklega ástæðu til að tiltaka hvernig sú utanþingsstjórn yrði samansett – bara að það sé utanþingsstjórn… Eins og það sé algjört aukaatriði hvort dómsmálaráðherrann yrði Gí­sli Valdórsson eða Siggi pönk.

Og það vantar svo sem ekki að bent sé á sögulega fordæmið: utanþingsstjórnina 1942-44.

Á huga mí­num sem sagnfræðings er þetta sérkennilegt val á stórn til að taka eftirdæmi af. Ætli utanþingsstjórnin sé ekki almennt álitin slappasta rí­kisstjórn Íslands á tuttugustu öld? Að miklu leyti snerist hún um að skara eld að sinni köku. Þessi rí­kisstjórn heildsala og fulltrúa Sambandsins var stefnulaus og verklí­til.

Valdaseta utanþingsstjórnarinnar var ágæt staðfesting á niðurlægingu Alþingis – en því­ fer svo ví­ðsfjarri að hún hafi á nokkurn hátt verið sameiningarafl eða stuðlað að því­ að lægja öldur í­ þjóðfélaginu. Eða er það ekki plottið með hugmyndinni?

Hver á að vera Vilhjálmur Þór í­ nýju utanþingsstjórninni? Finnur Ingólfsson? (Hann passar nú eiginlega best í­ hlutverkið…)

Auðvitað þarf arfleið utanþingsstjórnarinnar 1942-44 ekki að segja neitt um það hvernig utanþingsstjórn árið 2009 myndi reiða af. Slí­k stjórn gæti jafnvel plumað sig ágætlega ef vel tekst til. En stuðningsmenn hugmyndarinnar ættu þó að stilla sig um að benda á einverja slöppustu rí­kisstjórn 20.aldar sem leiðarljós sitt.