Það er hálfkjánalegt að tala um Moggahöllina við Aðalstræti í ljósi þess að Mogginn er löngu fluttur þaðan – fyrst upp í Kringlu og svo út í rasskat.
Tryggingamiðstöðin var lengi í byggingunni og maður var eiginlega farinn að venjast því að tala um TM-húsið. En nú er Tryggingamiðstöðin flutt eða að flytja.
Frekar en að bíða eftir nýrri starfsemi til að kenna kofann við, legg ég til að gamla heitið Vesturver verði endurvakið!
# # # # # # # # # # # # #
„Lýðveldisbyltingin“ boðar stofnun stjórnmálaflokks. Hann mun væntanlega fá annað heiti og mögulega kenna sig við lýðveldi á einhvern hátt.
Því miður fyrir aðstandendur hefur Lýðveldisflokkurinn verið notað í íslenskri pólitík. Það var í kosningunum 1953.
Lýðveldisflokkurinn – samtök frjálsra kjósenda var klofningur út úr Sjálfstæðisflokknum. Aðstandendur flokksins höfðu horn í síðu Ólafs Thors, en töldu sig halda á lofti stefnumálum Jóns Þorlákssonar. Einn helsti forsðrakkinn var raunar gamall viðskiptafélagi Jóns, Óskar Norðmann.
Þjóðviljinn staðhæfði að með nafngiftinni hefðu klofningsmenn (Óskar Norðmann, Gunnar Einarsson, Jónas Guðmundsson o.fl.) skotið sínum gamla flokki ref fyrir rass. Samkvæmt þessu hefði Sjálfstæðisflokkurinn verið að íhuga að taka upp þetta heiti, en nýi flokkurinn orðið fyrri til. Gaman væri að vita hvort þessi fullyrðing Þjóðviljans hafi verið rétt.
Svo fór að Lýðveldisflokkurinn bauð aðeins fram í þremur kjördæmum í þingkosningunum. Þá var flokkurinn með raðaðan landslista, einn framboða og var ísgeir ísgeirsson frá Fróðá efstur. Listabókstaðurinn var E. Lýðveldismenn náðu ekki inn manni og urðu fyrir miklum vonbrigðum með úrslitin.Rúmlega 2.500 kusu flokkinn, þar af tæp 2.000 í Rvík. Þetta þýddi um 3,3% atkvæða á landsvísu.
Málgagn Lýðveldisflokksins var Varðberg, sem Egill Bjarnason gaf út á árunum 1952-55. Það blað vantar tilfinnanlega inn á timarit.is.
Það er erfitt að sjá nákvæmlega í hverju hinn hugmyndafræðilegi ágreiningur Lýðveldisflokksins og Sjálfstæðisflokksins átti að liggja. Sá fyrrnefndi hamraði á því að hann stæði gegn spillingu og sóun á almannafé. Hann tók jákvætt í hugmyndir Stjórnarskrárfélagsins sem þá starfaði – og vildi efna til sérstaks stjórnlagaþings og stórauka völd forseta.
Þrátt fyrir vonbrigðin í þingkosningunum stefndu Lýðveldismenn ótrauðir að framboði í sveitarstjórnarkosningum snemma árs 1954 – í þeirri vissu að fylgið í þingkosningunum hefði dugað fyrir bæjarfulltrúa. Ekkert varð þó úr því og virðist forystu Sjálfstæðisflokksins hafa tekist að mestu að lempa þessa gömlu félaga sína.
Og þannig er nú sagan á bak við Lýðveldisflokkinn (fyrri?)
# # # # # # # # # # # # #
Á kvöld braust ég niður í geymslu og bar upp kassa með barnafötum. Það er víst ekki seinna vænna að byrja að þvo þessi ósköp.
Það var dálítið sérstök tilfinning að tína upp spjarirnar eina af annarri. Einhvern veginn man ég ekkert eftir þessum fyrstu mánuðum Ólínu. Þannig man ég ekki nema óljóst eftir að það hafi verið kúkableyjur, vökunætur og magakveisur. Fatahrúgan kallaði þó fram eitthvað af þessum minningum. Hvern fjandann erum við búin að koma okkur í?