Ammæli, verkalýðsdagur og föstudagur í vinnunni…
Úff, komin helgi og það ekki vonum fyrr. Raunar líður mér meira eins og að ég sé að skríða út úr erfiðri helgi frekar en inn í eina slíka.
Á miðvikudaginn fór skrifstofa forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur í sýnisferð um lóðir og lendur fyrirtækisins. (Þar var meðal annars hún Helga með í för.) Eins og vill henda á slíkum ferðum var vel veitt, en mér tókst þó lygilega vel að berja af mér boð um bjór, léttvín, koníak o.þ.h. – enda var ég á leiðinni í 95 ára afmæli. Það var Knattspyrnufélagið Fram sem hélt upp á þetta stórafmæli sitt í Versölum við Hallveigarstíg og þangað skundaði ég ásamt afa, sem fékk gullmerki KSÁ um kvöldið. Lenti á kjaftakörn við Svein Andra frænda minn, Alfreð Þorsteinsson og önnur stórmenni. – Það vantaði bara Jón Steinar og þá hefði myndin verið fullkomnuð…
Skemmtiatriðin voru fín og ræðurnar þolanlegar. Jóhannes Kristjánsson eftirherma var með uppistand. Hann hefur væntanlega kannast við smettið á mér og ákvað að prjóna mig inn í fjöldamarga brandara – sem var ekki mjög gott stöðumat þar sem fæstir Framararnir í salnum þekktu mig. Einhver hefði átt að benda honum á gömlu jaxlana á staðnum til að grínið hitti betur í mark.
Þegar borðhald, ræður og orðuveitingar voru afstaðnar rölti ég af stað á Grand rokk þar sem kommúnistarnir stóðu fyrir rokktónleikum. Stoppaði samt fyrst hjá ungum Framsóknarmönnum og lét Björn Inga gefa mér bjór, sem væntanlega hefur verið í boði S-hópsins. Það getur verið að fylgisprósentan sé í lægri kantinum hjá Framsókn um þessar mundir, en bjórinn þeirra hefur örugglega verið sterkari en 5% – í það minnsta varð ég öskufullur, rúllaði inn á Grand og ákvað að bæta nokkrum pintum af Steiger oní kokteilinn í vömbinni. Náði ekki að sjá annað af tónleikunum en pönkbandið „Ekkert kjaftæði“ – stóð fyrir háreysti meðan þeir spiluðu, sem er bara betra á pönktónleikum…
Að pönkinu loknu labbaði ég upp Laugaveginn og stefndi ótrauður á rúmið mitt. Ekki fór það þó betur en svo að Jói Nissa, bróðir Stefáns Jónssonar stórvinar míns dró mig inn á írsku skítabúlluna sem nú er rekin í gamla Blúsbarnum. Bætti ég þá Beamish við ólyfjanina sem búið var að innbyrða. Góðu heilli tókst öllu þessu alkohóli að láta mig gleyma hversu skítkalt væri í veðri. Á það var ég þó minntur þegar ég skreið upp í – alltof seint, alltof drukkinn og alltof kaldur. Reyndist ég ekki alveg sá aufúsugestir sem ég sjálfur taldi.
Það var aldrei hætta á öðru en að ég fengi makleg málagjöld eftir þessar æfingar og þegar kom að því að reyna að vakna kl. 9:30 til að undirbúa morgunkaffi SHA varð ég að segja pass. Skrölti aðeins niður eftir, glerþunnur klukkan að ganga ellefu. Nartaði í eina vöflu og drakk hálft djúsglas. Fór aftur heim og lagði mig fram að göngu.
Skítarok í kröfugöngunni. Mætti með þetta fína skilti – eins og sjá má á myndaseríunni hjá Palla. Hélt ég yrði úti á leiðinni, en komst þó við illan leik á Ingólfstorg. Ætlaði í kaffi hjá Vinstir grænum í Iðnó en þar var stappað af fólki og ég varð frá að hverfa. Fór í staðinn í kosningamiðstöðina að Ingólfstræti og hitti frústreraða krata sem eru að hugsa um að kjósa VG af því að Samfó sökkar. Sá líka Óla Njál og reyndi að selja honum frábæra hugmynd sem boða mun byltingu í bloggheimum.
Rauður fyrsti maí um kvöldið að Hallveigarstöðum. Liðleskjurnar vinir mínir skrópuðu flestir. Gunni flokksmaður lét þó sjá sig. Steinunn hélt ræðu sem bræddi allt gamla fólkið. Ræðan var reyndar fín og útilokað að sjá að henni hefði verið skellt saman rétt fyrir samkomuna. En mikið óskaplega var stelpan orðin þreytt í lok kvölds.
Vaknaði lurkum laminn. Nennti ekkert að sinna börnunum sem komu í morgun – dembdi allri vinnunni á Óla og er með smá samviskubit. Lenti í launaviðtali síðdegis. Óskandi að þetta fyrirtæki fari nú að mylja í mig peningum.
Farinn á barinn.