Fæðingardagur mikilmenna
Sumir dagar virðast gefa af sér fleiri mikilmenni en aðrir. Á dag, 8. maí fæddust t.d. eftirtalin stórmenni:
Edward Gibbon (1737-1794) – líklega einhver allra áhrifamesti sagnfræðingur sem uppi hefur verið – ef ekki sá áhrifamesti. Bók hans um hnignun Rómarveldis er af sagnfræðingum talið tímamótaverk í sögu sagnfræðinnar. Samt þekki ég engan sagnfræðing sem hefur lesið hana. Veit reyndar ekki með Sverri. Hann væri vís til þess.
Gustave Flaubert, franski rithöfundurinn, fæddist þennan dag 1880. Hans langfrægasta verk er að sjálfsögðu Madame Bovary sem þykir gríðarlega merkileg í bókmenntasögunni en er jafnframt óhemju leiðinleg. Vann þessa bók einhverju sinni í happdrætti á árshátíð sagnfræði- og bókmenntafræðinema og hef gert nokkrar tilraunir til að brjóta mig í gegnum hana – án árangurs.
Harry S Truman forseti Bandaríkjanna fæddist þennan dag 1884. Nenni ekki að besserwissast með því að skrifa hér um „S-ið“ í nafni hans. Kannski seinna.
Salma Harmaja, finnskt ljóðskáld, fæddist þennan dag 1913. Hún var þunglyndum unglingsstúlkum um miðbik síðustu aldar það sama og Sylvia Plath er jafnöldrum þeirra í dag.
Páll Hilmarsson fæddist þennan dag árið 1976. Hann er einna þekktastur fyrir smásögu sína „Játning rottu“ sem byggðist á raunverulegum atburðum í lífi hans.
* * *
Á þessum degi eru 150 ár frá fyrsta stóra járnbrautarslysinu. Það átti sér stað við Bellevue í Frakklandi og drap 53. Ef ég nennti gæti ég bloggað heljarlanga tæknisögufærslu að þessu tilefni. Sleppi því samt núna, en árétta að mig langar til að gerast járnbrautanörd. Járnbrautin í sögu Íslands væri æðislegt efni í doktorsritgerð.