Sumir fjölmiðlar hafa reynt að draga upp þá mynd af klúðrið varðandi framboðslista Lýðræðisfylkingarinnar sé enn eitt dæmið um að ístþór Magnússon sé óalandi og óferjandi. Ekkert er fjær lagi.
Það eru kjörstjórnirnar sem sitja uppi með svartapétur.
Nú hef ég haft það verkefni fyrir VG í Reykjavík tvennar kosningar í röð að halda utan um söfnun meðmælenda og hef því smáinnsýn í málið.
Hvers vegna í ósköpunum eru pappírar sem tengjast framboðsmálum (frambjóðendablöð, meðmælalistar o.s.frv.) ekki til á stöðluðu formi, t.d. á vef yfirkjörstjórnar? Fyrirmælin sem framboðunum eru gefin, eru óljós og ónákvæm. Þess utan virðist tilviljunum háð hvernig reglurnar eru túlkaðar.
Hvaða vitleysa er það t.d. að stefna öllum frambjóðendum á sömu 1-2 klukkustundunum rétt fyrir kosningar til að leggja fram gögnin – með þeim afleiðingum að allt fer í voða ef eitthvað er vitlaust gert?
Auðvitað ætti bara einhver starfsmaður (t.d. á skrifstofu dómsmálaráðuneytisins) að taka á móti gögnum á venjulegum skrifstofutíma einhverjar vikur eða mánuði fyrir kosningar.Hann gæti þá leiðbeint framboðum á villigötum.
Formleg nefnd gæti svo hist vikulega síðustu tvo mánuðina og stimplað gögnin. Þá geta rösk framboð klárað verkið með góðum fyrirvara en skussarnir verið á síðustu stundu. Væri það svo flókið?