Sjálfstæðismenn hafa undanfarna daga gengið sífellt harðar fram í árásum á VG. Þessu hlýtur maður að fagna.
VG hefur alla tíð lagt áherslu á að flokkurinn og íhaldið séu andstæðir pólar í íslenskum stjórnmálum. Andúð Sjálfstæðismanna á vissum hlutum í fari sumra Samfylkingarmanna og blint hatur þeirra á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur persónulega, hefur hins vegar gert það að verkum að stundum hefur Sjálfstæðisflokkurinn eytt mestu púðri í að berja á Samfylkingunni og tala þá jafnvel hlýlega á stundum um VG-fólk.
Mér leist alltaf bölvanlega á það, þegar Sjálfstæðisflokkurinn byrjaði að láta skömmunum rigna yfir ISG og Samfylkinguna – því það varð til þess að kratarnir fengu fylgi sem annars hefði líklega leitað til VG.
Það er komplíment á Íslandi árið 2009 að vera úthúðað af Sjálfstæðisflokknum.
Og það er erfitt að hugsa sér meiri heiður fyrir stjórnmálahreyfingu en að vera sökuð um það af Sjálfstæðismönnum að hafa skipulagt búsáhaldabyltinguna.
(0:12, Breytti augljósri innsláttarvillu og fjarlægði ábendingarathugasemdina.)