Ríkisstjórnin ætlar að endurskoða kjör æðstu stjórnenda hjá ríkinu. Það er í sjálfu sér gott mál. Sumir þeirra eru bara ansi vel haldnir og geta ekki lengur skýlt sér á bak við það sem tíðkast í einkageiranum á sama hátt og áður.
Það er hins vegar sérkennilegt í málflutningnum að sérstök áhersla sé lögð á að þessir sömu toppar séu með hærri laun en forsætisráðherra og að það sé mikill skandall.
Af hverju á forsætisráðherra endilega að vera hæstlaunaði starfsmaður ríkisins? Hvaða lógík er í því, önnur en sú harða peningahyggja að mikilvægi fólks endurspeglist í því hversu mikið það fær borgað? Sá ríkasti sé sá flottasti!
Mér finnst þvert á móti ýmis rök vera fyrir því að ekki þurfi að greiða stjórnmálamönnum og ráðherrum eins há laun og mörgum öðrum stéttum. Störfum þeirra fylgja nefnilega ýmis önnur fríðindi, sem skipta ekki minna máli en launaflokkar.
Undantekningarlítið hafa stjórnmálamenn t.d. unun af vinnu sinni. Sama þótt þeir reyni að halda öðru fram, þá þrífast þeir á hinu sífellda áreiti og endalausum símtölum og fundum með fólki út af tilfallandi málum. Stjórnmálamenn eru upp til hópa hégómlegir – án þess að það sé meint í neikvæðri merkingu. Þeir verða að fá athygli og viðurkenningu, ekki ósvipað og t.d. leikarar.
Stjórnmálamaður sem verður forsætisráðherra, er á pari við íþróttamanninn sem vinnur gullverðlaun. Minningin um keppnina, sigurstundin, það að stíga upp á verðlaunapallinn og medalían uppi í skáp er það sem drífur hann áfram. Ekki verðlaunaféð.
Á raun mætti færa fyrir því rök að forsætisráðherra ætti að fá LÆGRI laun en t.d. oddviti stjórnarandstöðunnar. Sá síðarnefndi puðar álíka mikið, en nýtur ekki frægðarsólarinnar.
Ergo: krukkum í laun ríkisforstjóranna – en ekki með það að markmiði að koma forsætisráðherranum á toppinn. Það er algjör óþarfi.