Smiðjustígur 5b

Um daginn rak á fjörur mínar athyglisverð bók, Smiðjustígur 5b, eftir Helga Ó. Þórarinsson lækni í Noregi. Bókin, sem kom út 2006, fór ekki í almenna sölu – enda fyrst og fremst skrifuð fyrir fjölskylduna til að halda saman upplýsingum úr ættarsögunni. Hana er þó að finna á Landsbókasafni.

Ástæðan fyrir að ég fékk eintak, er tengingin við gömlu Rafmagnsveituna. Helgi vann sem ungur maður hjá Rafmagnsveitunni og faðir hans var um árabil einn aðalmaðurinn í flutningadeild fyrirtækisins. Í bókinni er að finna einstæðar lýsingar á þungaflutningum í tengslum við virkjanaframkvæmdir og stórmerkilegar upplýsingar, t.d. um flóðið í Steingrímsstöð.

Fyrir þá sem ekki hafa leiftrandi áhuga á virkjanasögu Sogsins, er bókin líklega einkum áhugaverð fyrir magnaða fjölskyldusöguna. Afi Helga var dr. Helgi Pjeturs. Við lesningu Smiðjustígs 5b botnar maður hreinlega ekki í því hvers vegna ekki er búið að skrifa ævisögu dr. Helga. Það yrði metsölubók – og góður peningur fengist fyrir kvikmyndaréttinn!

Einhvern veginn hefur það viljað fylgja endurminningarbókum lækna að vera bersöglari en gerist og gengur. Mér er til efs að margir myndu fá sig til að lýsa persónulegustu málefnum afa síns og ömmu jafn hreinskilnislega og Helgi Þórarinsson gerir í þessu verki. En það verður ekki annað sagt en að hann kveiki löngunina til að fá að vita meira.

Smiðjustígur 5b er sannkölluð hungurvaka og skyldulesning fyrir þá sem vilja fræðast um dr. Helga Pjeturs – sem kalla mætti forvitnilegasta vísindamann Íslendinga á tuttugustu öld.