Deilurnar um Icesave-samninginn eru á góðri leið með að taka á sig afar kunnuglega og fyrirsjáanlega mynd. Þeir sem taka þá línu að samningurinn sé viðunandi og líklega það skásta í spilunum – fá yfir sig reiðigusurnar úr hinni áttinni fyrir að vilja selja ófæddar kynslóðir í skuldaþrældóm og fyrir að leggja blessun sína yfir framferði ófyrirleitinna kaupsýslumanna. Þeir sem eru á móti samningnum – eru á hinn bóginn skammaðir fyrir að lifa í draumaheimi og afneitun.
Svona umræða, með svikabrigslum og ásökunum um heimsku og einfeldni á báða bóga er óskaplega leiðinleg. Verður raunar til þess að maður nennir varla að taka þátt. Læt mig samt hafa það…
Nokkrir sundurlausir punktar varðandi Icesave-málið:
* Ríkisstjórnin ætti að stilla sig um að lita staðreyndir málsins rósrauðum litum. Þegar forsætisráðherra talar um að 95% af skuldunum muni innheimtast, er augljóst að hún trúir því ekki einu sinni sjálf. Þetta stuðlar bara að tortryggni og ýtir undir ruglkenningar um að í raun séu andskotans engar eignir fyrir hendi. Hreinskilni er málið.
* (Punktur sem Guðmundur Rúnar Svansson hefur velt upp á sínu bloggi.) Þeir sem tala fyrir dómstólaleiðinni, virðast reikna með því að ósigur í slíku dómsmáli myndi leiða til niðurstöðu sem jafngilti þessum samningi. Það er líklega fjarri lagi. Ef Íslendingar myndu fara fyrir dómstóla, þá verður alltaf að reikna með því að slíkt mál gæti tapast. Hver yrði þá versta mögulega niðurstaða úr slíku? Verða menn ekki að hafa þær upplýsingar til hliðsjónar?
* Ef ég væri ESB-sinni, myndi ég íhuga það alvarlega að reyna að salta aðildarmálið næstu 8-10 mánuðina eða svo. Stemningin í þjóðfélaginu er verulega andsnúin útlendingum, sem eiga víst að bera höfuðábyrgð á ógæfu okkar og skulda okkur stórfé. ESB-andstæðingar munu óspart draga fram Icesave-kortið og næstu mánuðina mun það trompa velflest annað.
* Hugmyndina um þjóðaratkvæðagreiðslu ætti ekki að slá út af borðinu umræðulaust. Gleymum því ekki að á vorþinginu ætluðu núverandi stjórnarflokkar að fá samþykkt ákvæði sem gerðu mönnum tiltölulega auðvelt að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu. Þótt það hafi ekki náð í gegn eiga Samfylking og VG ekki auðvelt með að standa gegn slíku siðferðislega.
Rökin um að ekki séu til lög um svona kosningu eða að tíminn sé of naumur gilda ekkki. Þannig kosning yrði þá bara leiðbeinandi (eins og flugvallarkosningin um árið). Við eigum kjörskránna frá því í vor og í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir að kosið yrði t.d. fyrsta júlí.
* Vaxtaumræðan er út í hött. Það fær enginn 0,5% vexti á langtímaláni – hvað þá þjóðríki sem err úið trausti. Síðast í gær las ég einhvern fótboltapistil sem gekk út á að Arsenal væri í sérdeilis góðum málum peningalega, því völlurinn þeirra hefði verið byggður fyrir langtímalán á 5,6% vöxtum, sem teljist afbragðskjör. Ætli Ísland teljist mikið betri skuldari en Arsenal?
* Það jákvæðasta við samninginn (en sem menn þora svo sem ekki að segja opinberlega) er líklega sjö ára frestunin. Ef allt endar á versta veg, mun Ísland ekki geta staðið undir skuldinni. Verði sú raunin, er líklega miklu betra að það komi í ljós eftir sjö ár (þegar Bretum og Hollendingum verður vonandi runnin reiðin). Rök á borð við þau að við séum fá og smá – og stjórnmálamennirnir sem klúðruðu þessu hvort sem er allir hættir störfum, munu hafa ólíkt meira vægi 2016 en 2009. Kalt mat.
Ég get ekki beðið eftir næstu umferð í fótboltanum til að geta farið að hugsa um eitthvað annað…