Heimsfrægð innan seilingar
Munurinn á meðalmanninum og brautyðjandanum kemur í ljós þegar harðnar á dalnum. Sá fyrrnefndi leggur árar í bát þegar á móti blæs, sá síðarnefndi sér sóknarfæri í erfiðleikunum.
Stefán Pálsson, 2003
Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi er ég tábrotinn. Táin við hliðina á stórutánni brotnaði í fótboltaleik á fimmtudaginn og má ég heita örkumlamaður eftir. Slíkt áfall myndi líklega duga til að leggja flesta óharðnaða drengi í rúmið, en ég er staðráðinn í að berjast áfram og snúa þessu mér í hag.
Á spítalanum gerði ég mikilsverða læknisfræðilega uppgötvun. Ég spurði lækninn út í nöfnin á tánum þremur milli stórutáar og litlutáar. Á ljós kom að slík nöfn eru ekki til. Sín á milli tala læknar og aðrir starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar um „tær 1,2 & 3“, en einnig er algengt að fólk tali um „Vísitá“, „Löngutá“ og „Baugtá“ – sem augljóslega vísar til heita fingranna á mannshöndinni.
Vístiá, Langatá og Baugtá eru hins vegar galin nöfn. Langatá er augljóslega ekki lengst, enginn notar vísitá til að benda og þá sjaldan fólk gengur með hringa á tánum, þá eru þeir settir á tá 2 – ekki „Baugtá“. Hér er því sóknarfæri.
Er hér ekki komið Kólumbusareggið sem halda mun nafni mínu á lofti um ókomna tíð? Reynist þessi uppgötvun ekki lykill minn að innlendum jafnt sem alþjóðlegum uppflettiritum? Hlýtur ekki draumur minn um frægð og ódauðleika loksins að vera að rætast. (Jújú – vissulega er ég nú þegar býsna frægur sem besti bloggari landsins og hugsanlega á öllum Norðurlöndunum, en internet-frægð er varla alvöru frægð enda er internetið bóla sem mun springa á næsta áratug.)
Ég hef sem sagt ákveðið að fullkomna nýtt og betra nafngiftakerfi fyrir tær – sem augljóslega mun einfalda störf lækna í framtíðinni og greiða fyrir málþroska barna. Þetta nýja kerfi, sem mér hefur dottið í hug að kalla Mánagötukerfið – enda þróað á Mánagötunni, mun samtvinna eldri nafngiftakerfi og nokkur ný heiti.
Stóratá og litlatá munu báðar fá að halda sínum nöfnum, enda þau lýsandi og mega heita í almennri notkun. Táin í miðjunni verður kölluð „miðtá“ og ætti ekki að þurfa að skýra þá nafngift frekar. Eftir standa á tvær tær.
Tánna milli stórutáar og miðtáar tel ég eðlilegt að nefna „Stefánstá“. Með því væri líka komin skemmtileg vísun í tábrotið mitt sem láta mætti fylgja með í sögubókum framtíðarinnar. (Newton og eplið; Watt og gufuketillinn; Stefán og brotna táin…)
Ég hef ekki enn lokið við að ráðstafa fimmta og síðasta nafninu, fyrir tána milli miðtáar og litlutáar. ímsir möguleikar eru þar hendi. T.d. hefur mér dottið í hug nöfnin „Kuhnstá“ og „Napóleonstá“ – annars vegar með vísun í Thomas Kuhn, eftirlætis vísindaheimspekinginn minn en hins vegar Napóleon Bónaparte. Til greina koma léttúðugri nöfn á borð við „blátá“ og um skeið daðraði ég við þá hugmynd að heiðra Safamýrarstórveldið með því að velja nafnið „Framtá“ – en hætti við það af augljósum ástæðum. Sem stendur er líklegast að fyrir valinu verði nafnið „Reykjavíkurtá“. Með því myndi ég heiðra borgina sem hefur alið mig upp og þar sem ég hef gert helstu uppgötvanir mínar.
Næsta skref hlýtur því að vera að kynna þetta kerfi, helst með greinum í Lancet og New England Journal of Medicine.
Jamm.