Jújú, ég er alveg sammála því að laun æðstu stjórnenda ríkisstofnanna eru óþarflega rausnarleg og að sjálfsagt sé að þau lækki.
En ég spyr enn og aftur – hvaða rök eru fyrir því að forsætisráðherra sé hæstlaunaði ríkisstarfsamaðurinn? Eru EINHVER önnur rök fyrir því en „afþvíbara“ og „forsætisráðherrann er aðalgaurinn og aðalgaurinn á að fá mest“?
Öfugt við nær allar helstu stjórnunarstöður ríkisins, eru engar menntunarkröfur gerðar til forsætisráðherra. Er ekki eðlilegt að komi fram með einhverjum hætti í launakjörunum?
Enn hefur það ekki gerst í lýðræðisþjóðfélagi að enginn vilji verða forsætisráðherra. Þvert á móti komast miklu færri að en vilja. Út frá einföldum markaðslögmálum ætti þetta að gera vinnuveitandanum (almenningi) færi á að greiða lægri laun fyrir starfið en ella.
Mér finnst að ríkisstjórnin ætti að breyta stefnu sinni og taka þess í stað upp það viðmið að laun forsætisráðherra geti aldrei orðið hærri en t.d. 75-80% af því sem hæstlaunuðu ríkisstarfsmenn fá í sinn hlut.
…
Ég man reyndar bara eftir einum íslenskum stjórnmálamanni sem ákvað að láta af störfum vegna þess að launin væru ekki nógu há. Það var Finnur Ingólfsson. (Held að tillaga mín þurfi ekki frekari rökstuðnings við.)