Frumvarp ríkisstjórnarinnar um nýjar kosningareglur Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum er vont. Það er vanhugsað og illa rökstutt. Því miður.
Ríkisstjórn VG og Samfylkingar ákvað að gera það sama og allar aðrar ríkisstjórnir hafa gert þegar kemur að endurskoðun kosningakerfisins: að hringja í Þorkel Helgason og láta hann setjast niður og reikna. Það hefur gefið misjafna raun til þessa, en núna virðist hafa tekist óvenju illa til.
Sú hugmynd að nóg sé að fá klókan stærðfræðing til að semja kosningareglur er galin. Það er álíka skynsamlegt og ef ríkið ákvæði að reisa stórbyggingu (tónlistarhús, spítala, háskóla) og léti nægja að finna verkfræðing til að staðfesta að verkið sé tæknilega framkvæmanlegt miðað við burðarþol og staðla. Auðvitað er það ekki nóg. Áður en ráðist er í bygginguna hljóta menn að þurfa að meta þörfina, áætla rekstrarforsendur og ákveða hvernig eigi að nýta hana. Gefur það ekki auga leið?
Þorkell Helgason kann að reikna og honum er alveg treystandi til að kveða uppúr um það hvernig standa eigi að því að telja atkvæði og úthluta sætum á þingi eða í sveitarstjórnum á grunni þess. En kosningar eru bara svo mikið, mikið meira en starf talningarmanna og að slá úrslitunum inn í Excel. Fyrst og fremst eru kosningar hápunktur stjórnmálalífsins í landinu. Valið á kosningakerfi mótar það hvers konar pólitík við fáum, hvernig umræðan fer fram og hvaða möguleika ólíkar stefnur hafa til að takast á í samfélaginu.
Að öllu eðlilegu ættu stjórnvöld sem ákveða að breyta kosningakerfi að byrja á að skilgreina hverju þau vilji ná fram með breytingunum – hvernig stjórnmálakúltúr þau vilji láta þróast. Síðan væri farið til stærðfræðinganna og þeim falið að finna leiðir að því marki. En nei… íslenska leiðin er að hringja í Þorkel og leyfa honum að hræra í kerfinu eina ferðina enn.
Þessar tillögur hafa fengið titilinn „persónukjör“, enda slíkt heiti til vinsælda fallið. Einhverra hluta vegna hefur fjöldi fólks nefnilega bitið það í sig að persónukjör sé samkvæmt skilgreiningu lýðræðislegra en kerfi sem leggja minni áherslu á að velja einstaklinga.
Enginn skyldi þó blekkja sig á að þessar breytingar séu sérstaklega fallnar til að ýta undir lýðræði. Þær hafa þann helsta tilgang að losa suma stjórnmálaflokka úr ákveðnu öngstræti sem þeir eru komnir með prófkjörin sín, með því að skikka alla til að halda prófkjör og láta þau fara fram á kjördegi. Mér sýnist einsýnt að annað af tvennu muni gerast: vægi peningaaflanna munu aukast eða flokksræðið aukast til muna. Svo er bara að velja hvort mönnum hugnast betur.
Hvernig rökstyð ég þennan bölsýnislega spádóm?
Fyrir fáeinum misserum voru sett lög um fjárreiður stjórnmálaflokka, sem margir höfðu kallað eftir lengi og talið brýn. Þessi lög gera ráð fyrir því að val fulltrúa fari fram í tvennu lagi – fyrst sé skipað á lista, þar sem hver stjórnmálasamtök ráði því hvort þau stilli upp eða viðhafi einhvers konar forkosningu með þátttöku fleiri eða færri flokksmanna og stuðningsfólks. Reglur eru í gildi um fjármál, fjáraflanir og kostnað einstaklinga sem taka þátt í prófkjörum.
Þegar búið er að velja á hvern framboðslista, taka sjálfar kosningarnar við, þar sem aftur gilda sérstakar reglur um fjármál og eftirlit með kostnaði og þar eru flokkarnir í ökumannssætinu. Þetta tvöfalda kerfi liggur til grundvallar lögunum um fjárreiður stjórnmálaflokka og breytingin sem ríkisstjórnin leggur nú til leiðir sjálfkrafa til þess að lögin verði skorin upp. (Þótt ekkert bendi raunar til að ríkisstjórnin hafi áttað sig á þessu.)
Og þá eru tveir valkostir:
Úr því að ætlunin er að flytja prófkjörin inn í kjörklefann – á þá þá að leyfa prófkjörsbaráttunni að fara með inn í kosningabaráttuna? Það þýðir auglýsingar, kosningaskrifstofur og símhringingar á vegum einstakra frambjóðenda allt fram á kjördag – frambjóðenda sem eru í raun miklu háðari sínum stuðningsaðilum en heilir stjórnmálaflokkar. Hugsið ykkur aðstöðumuninn þegar milljónatugirnir sem notaðir eru prófkjörum Sjálfstæðismanna hellast inn í sjálfa kosningabaráttuna, samanborið við það lítilræði sem fólk í flestum hinna flokkanna er vant að setja í prófkjörsbaráttu!
– Varla getur það verið ætlun þessarar ríkisstjórnar að snarauka völd peningaaflanna í íslenskum kosningum? Eða hvað?
Hinn kosturinn er þá að koma prófkjörunum inn í kjörklefann, en koma í veg fyrir að frambjóðendurnir fái að reka eigin kosningabaráttu. Þannig væru hin raunverulegu völd sett í hendurnar á framkvæmdastjórnum flokkanna, kosningastjórum þeirra – og jú, Egils Helgasonar.
Stefán litli Pálsson gæti vissulega boðið sig fram fyrir Vinstri græna og ætti í teoríunni jafnan séns og hver annar, en valdamiðstöðvarnar í flokknum myndu kaupa auglýsingapláss í strætóskýlum fyrir myndir af Kötu, Ömma og Svandísi… Kosningastjórarnir gætu svo sent þingmennina á vinnustaðafund í Landsspítalanum eða Orkuveitunni, en mig á fimm manna stuðararéttingaverkstæði í Vogunum. Stjórnendur Kastljóss, Íslands í dag og Silfurs Egils myndu svo ráða mestu um hverjir ættu séns – með því að velja sér viðmælendur eftir því hver er skemmtilegastur á Ölstofunni um helgar, frekar en að þurfa að horfa á sæti fólks á framboðslistum.
Ég er rétt að byrja að telja upp allt það sem mér finnst vanhugsað og vitlaust við nýja frumvarpið, en einhvern veginn efast ég ekki um að það á eftir að fljúga í gegn lítið eða ekkert breytt. Það fellur nefnilega vel að hinni ríkjandi tísku í lagasmíð á Íslandi – að teljist sérstakur kostur á frumvörpum að þau séu eins og Reykjavík áður fyrr: byrji í bráðræði og endi í ráðaleysu.