Ein aðalfrétt Útvarpsins í dag fjallaði um að erlend peningastofnun hefði gefið út lista yfir þau lönd sem líklegust væru til að lenda í greiðsluþroti – fara á hausinn. (Venjulegt fólk veðjar á netinu um hvaða fræga fólk muni deyja á árinu, en verðbréfadrengirnir giska á hvaða lönd verði gjaldþrota…)
Fréttapunkturinn hér heima var vitaskuld sá að Ísland er ofarlega á blaði með rúmlega þriðjungs líkur.
Annað var þó ekki síður áhugavert við listann. Argentína var í toppsætinu og höfðu hagfræðingarnir áætlað um 70% líkur á greiðsluþroti. Þessi staðreynd ætti að vekja menn til verulegrar umhugsunar hér heima, því þegar rætt hefur verið um möguleikann á því að Ísland segi sig einfaldlega frá skuldum sínum – lýsi yfir greiðslufalli – þá hefur Argentína verið nefnd sem fyrirmynd.
Ýmsir virðast álíta að gjaldþrot ríkja lúti sömu lögmálum og þegar einstaklingar eða fyrirtæki fari í þrot – að til verði ný kennitala og hægt sé að byrja aftur með hreint borð. Þannig hef ég heyrt suma flokksfélaga mína í VG tala á þeim nótum að Íslendingar verði aldrei borgunarmenn fyrir skuldunum og því sé jafnvel betra að „taka höggið núna strax“ – hugmyndin virðist vera sú að illu sé best af lokið.
Og auðvitað eru margir skotnir í rómantísku hugmyndinni um greiðslufall, ef hún þýðir 4-5 ár af þrengingum og hálfgerðum sjálfsþurftarbúskap – en síðan væri hægt að byrja aftur með hreint borð.
En svona virkar þetta bara því miður ekki. Það sannar staða Argentínumanna í dag.
Ríki sem neyðast til að grípa til greiðslufalls, dæma sig til áframhaldandi þrenginga. Þegar þau fá loksins aftur lán, eru kjörin afleit. Og gömlu skuldirnar hafa tilhneigingu til að skjóta aftur upp kollinum, eins og reynsla Argentínumanna sýnir.
Sú hugmynd að það geti verið efnahagslegt gæfuspor fyrir ríki að setja sig á hausinn fyrr heldur en síðar hlýtur því að teljast álíka vanhugsuð og hjá liðinu sem reynir að verða sér út um svínaflensu núna í þeirri von að sleppa betur seinna…