Birgitta Jónsdóttir hefur fengið á baukinn hjá fjölmörgum bloggurum um helgina vegna meintra svika við stefnu Borgarahreyfingarinnar í síðustu kosningum – eftir að hún lét í það skína að hún styddi ekki ESB-tillögu forsætisráðherra. Þeir sem býsnast yfir þessu draga margir fram 1-2 setningar úr formannaumræðuþætti til sönnunar þess að Birgitta sé sjálfri sér ósamkvæm í málinu.
Þetta er billegur málflutningur og bendir til að menn muni ekki langt aftur.
Stefna Borgarahreyfingarinnar í ESB-málinu var auðvitað flóknari en svo að skuldbinda sig til að samþykkja hverja þá tillögu sem næsta ríkisstjórn kynni að leggja fram varðandi ESB – svo fremi að hún fæli í sér þjóðaratkvæðagreiðslu á einhverjum tímapunkti.
Borgarahreyfingin hafði þá stefnu að þjóðin ætti að taka afstöðu til ESB-aðildar, en því fylgdu líka skilyrði um málsmeðferð. Þar var til dæmis gert ráð fyrir miklu kynningarstarfi sem rík áhersla var lögð á að yrði að vera „faglegt og hlutlaust“. Ég skildi hugmyndirnar raunar þannig að Borgarahreyfingin vildi láta koma á laggirnar nýrri ríkisstofnun sem ætti að vera skipuð óháðum og færum sérfræðingum til að útskýra alla kosti fyrir almenningi.
Þetta voru kannski ekki raunhæfustu hugmyndirnar – en svona voru tillögurnar engu að síður.
Ekkert í tillögu forsætisráðherra eða greinargerðinni með henni bendir til þess að ætlunin sé að koma á einhverju óháðu mats- og kynningarbatteríi í framhaldi af aðildarviðræðum við ESB. Þvert á móti áætlar ríkisstjórnin kostnaðinn við samningsferlið mjög lágan – um 900 milljónir – og utanríkisráðherra telur að sú upphæð gæti orðið mun lægri. Það gefur ekki mikið svigrúm fyrir nýju ríkisstofnunina sem Borgarahreyfingin vildi sjá.
Í ljósi þessara fyrirvara Borgarahreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar, hef ég aldrei skilið hvers vegna ESB-sinnar innan ríkisstjórnarinnar hafa talið sig ganga að stuðningi þingmanna hreyfingarinnar vísum. Það er í það minnsta út í hött að kalla það svik við kjósendur O-listans þótt þingmenn hans skrifi ekki upp á hvað það sem að þeim er rétt í þessum málaflokki.