Eitt og annað

Meðan allir fréttatímar eru fullir af Icesave- og ESB-málum, virðist yfirtaka lánardrottna á Kaupþingi ætla að rúlla í gegn umræðulítið. Það er hálfgalið.

Hvað þýðir slík breyting? Skuldir ríkissjóðs munu væntanlega lækka eitthvað. En mun þetta hafa áhrif á rannsókn bankahrunsins? Hvað vakir fyrir nýjum eigendum – eru þeir fyrst og fremst að hugsa um að reyna að ná eitthvað upp í glataðar kröfur eða hafa þeir raunverulegan áhuga á að fara í almennan bankarekstur á íslenskum markaði? Með stóran hluta af atvinnulífinu í gjörgæslu bankanna – mun þá skipta máli núna hvaða fyrirtæki eru með Kaupþing sem viðskiptabanka og hverjir eru með ríkisbankana tvo? Um þetta væri gaman að lesa.

Hagsmunasamtök heimilanna hljóta að vera á nálum. Hlýtur þessi eignarhaldsbreyting ekki að verða til að drepa allar hugmyndir um skuldaniðurfærslu? Það virðist liggja beint við.

# # # # # # # # # # # # #

Það er gaman að fylgjast með fyrstu deildinni í fótboltanum, þar sem baráttan um úrvalsdeildarsætin er á milli liða sem hafa aldrei leikið í efstu deild, sjaldan verið meðal þeirra bestu – eða í það minnsta ekki verið þar um nokkurt skeið.

Selfoss og Fjarðabyggð hafa aldrei verið þarna uppi. Haukarnir í eitt tímabil, 1979. HK hefur litla reynslu af þeim vettvangi og KA er þaulsetið í næstefstu deild.

Sem tengdarsonur Norðfjarðar hlýt ég að óska Fjarðabyggð góðs gengis. Stefni að því að ná einum ef ekki tveimur leikjum með þeim í sumar.

# # # # # # # # # # # # #

Framararnir eru búnir að vinna sjö af átta síðustu leikjum sínum. Eina tapið var gegn FH. Þrátt fyrir að vera í áttunda sæti í deildinni, finnst mér við vera að spila eins og 2.-3. besta lið deildarinnar. Evrópusæti er fyllilega raunhæft ef framhald verður á þessari spilamennsku.

Á fimmtudag leikum við ofboðslega erfiðan útileik í Evrópukeppninni. Fyrirfram eru líkleg úrslit 3:0 tap, en hver veit – kannski sleppum við með bara eitt mark á bakinu. Þá væri allt opið á Laugardalsvellinum eftir rúma viku.

# # # # # # # # # # # # #

Hvers vegna er ekki búið að gefa Sval og Val út komplett á íslensku? Getur einhver með tengingu við bókabransann útskýrt fyrir mér hvernig við gátum pundað út teiknimyndasögum á íslensku fyrir 20 árum, en leggjum ekki í það í dag? Ætti svona prentun ekki að vera miklu ódýrari núna en þá? Hvað breyttist?