Sumarmaðurinn er fundinn!
Jæja, þá er búið að fá úr því skorið hver verður sumarstarfsmaður hjá mér á Minjasafninu. Það er sá ljúfi drengur Sverrir Guðmundsson.
Sverrir er um þessar mundir hagfræðinemi, en hefur einnig verið verkfræði í Háskólanum auk þess sem hann var viðriðinn Hið íslenska eimreiðarfélag sem var skilgetið afkvæmi internetbólunnar á sínum tíma. Sverrir starfaði í nokkur sumur við Búrfell á vegum Landsvirkjunar og er forfallinn áhugamaður um orkusögu. Hann er einnig með stjörnufræðidellu, sem þýðir að hann og Ólafur Guðmundsson kennari og verktaki við safnið munu geta dundað sér saman. – Ég bind vonir við að Sverrir gæti síðar verið íhlaupamaður í Rafheimum ef ég forfallast, r.d. vegna veikinda.
Sennilega er pilturinn þó einna þekktastur fyrir þátttöku sína í Gettu betur. Þegar hann var busi, veturinn 1995-6, þá var hann valinn liðsstjóri spurningaliðs MR en þá var ég þjálfari þess. Einhverju sinni kom Logi Bergmann Eiðsson í heimsókn á æfingu og tók okkur sem tengdumst liðinu tali, var viðtalið sýnt í Dagsljósi sem þá var á dagskrá fyrir fréttir.
Logi ræddi við okkur um daginn og veginn í viðtalinu, en benti svo á Sverri og spurði hver hann væri. Þá greip ég orðið og upplýsti sjónvarpsáhorfendur um að þessi ungi piltur héti Sverrir Guðmundsson og að hann myndi vinna spurningakeppni framhaldsskólanna fyrir Menntaskólann fimmta, sjötta og sjöunda skiptið í röð. – Allir liðsmennirnir stirðnuðu upp – sem og Sverrir og Logi, sem loksins stundi út úr sér: „það vantar ekki í ykkur drýldnina!“
Síðar hefur sagan leitt í ljós hvort um drýldni eða rétt stöðumat hafi verið að ræða.