Fá fréttamenn aldrei ruslpóst?
Nú hefði maður haldið að yfir fáar stéttir rigndi jafn miklum ruslpósti og fréttamenn. Samkvæmt skilgreiningu felst starf þeirra í því að sitja fyrir framan tölvuskjá heilu og hálfu dagana, með farsímann í annarri hendi og hina á lyklaborðinu. Þessu vinnulagi fylgir óhjákvæmilega geysileg notkun á tölvupósti og allir sem nota tölvupóst mikið fá ókjör af rusli í pósthóilfið. Þannig er það nú bara.
…eða svo hélt ég. Þrátt fyrir þetta, virðast fréttamenn ótrúlega oft vera grallaralausir þegar kemur að dæmigerðu peningaplokki á netinu. Tökum dæmi:
i) Á 2-3 mánaða fresti birta allir fjölmiðlar fréttir af því að tölvuskeytin sem lofa tugmilljónum inn á bankareikning manns frá einhverju spilltum einræðisherra í Afríku séu svindl. Auðvitað er sjálfsagt að minna á þetta öðru hvoru til að hrekkleysingjar láti ekki ginnast, en undrun fréttamanna yfir þessu kemur mér stöðugt á óvart.
ii) Fölsuðu prófskírteinin frá Háskólanum. – Núna er búið að gera fjölda frétta af því að hægt sé að kaupa fölsuð prófskírteini á netinu og það meira að segja frá Háskóla Íslands. Á alvöru? Hvað héldu menn eiginlega að öll skeytin sem bjóða manni masters- og doktorsgráður fyrir 50 dollara gengu út á? Ég fæ u.þ.b. tuttugu svona skeyti á viku. Það er nú ekki eins og þessi diplómufölsunarbransi hafi farið mjög leynt…
iii) Tölvuvírusaviðvaranir. – Sem betur fer virðast fréttastofurnar að mestu vera farnar að læra að hlaupa ekki með allar plat-vírusaviðvaranirnar í fréttir, en það gerist samt á nokkurra mánaða fresti að einhver nýliðinn les tölvupóstinn sinn og hyggst bjarga öllum tölvunotendum landsins með því að upplýsa þá um ógnina.
iv) Verðlaunasamkeppnir. – Úff hvað það var óþægilegt að hlusta á fréttina af stelpugreyinu sem var himinlifandi yfir að hafa unnið í ljóðasamkeppni í Bandaríkjunum. Hvernig í ósköpunum kemst svona frétt í loftið á fjölmennri fréttastofu? Nú hljóta svona 6-8 manns að heyra af aðalatriðum hverrar fréttar áður en þær eru sendar út. Eru fréttamenn virkilega svo grænir að viðvörunarbjöllurnar fari ekki að hringja þegar þeir frétta af heimasíðum sem bjóða gull og græna skóga. (Innihald „sigurljóðsins“ hefði eitt og sér átt að vera góð vísbending um að ekki væri allt með felldu.)
v) Stórir happdrættisvinningar. – Ekki bundið við netið, en það er segin saga að einu sinni á ári eða svo kemur frétt af „heppnum“ Íslendingi sem unnið hefur múltí-milljónur, snekkju eða einbýlishús í bandarískum happdrættum. Hver man ekki eftir vesalings karlinum sem átti að hafa unnið fokdýran sportbíl á skafmiða með tímariti? – Hversu oft hefur maður ekki fengið bréf eða tölvupóst þess efnis að maður sé orðin milljóner – en þurfi bara að senda 30 dollara í staðfestingargjald fyrst… – Getur virkilega verið að fréttastofur ráði bara þessa sárafáu einstaklinga sem aldrei hafa fengið svona póst?
Nú er komin gúrkutíð í fréttunum og því ekki úr vegi að stinga upp á nokkrum góðum rannsóknarefnum fyrir ákafa blaða- og fréttamenn. Hvað með afhjúpanir á borð við:
* ódýra Viagra-ið sem hægt er að fá sent í pósti. Gott ef það fylgir ekki með í þessu öllu saman að þetta sé sérstaklega styrkt lyf og virki jafnvel enn betur en venjulegt Viagra.
* Typpastækkunarlyfin/smyrslin/tækin sem kosta slikk og menn munu fá send um hæl gegn vægu verði.
* Leiðir til að koma í veg fyrir að njósnað sé um tölvuna þína – selt starfsmönnum sem skoða klám í vinnunni og vilja ekki að kerfisstjórinn fatti það. Hahaha… kerfisstjórar geta ALLTAF komist að öllu sem þeir vilja.
* Og síðast en ekki síst – skráningar í fullkomnustu heimasíðuskrár í heimi sem kynntar eru sem ókeypis. Hversu mörg skeyti ætli maður hafi fengið þess efnis að Bed & Breakfast-síðan manns sé EKKI að fá nógu margar heimsóknir…