3:3 (b)

Fyrir leikinn gegn Blikum í kvöld hefði ég ekki sætt mig við neitt annað en sigur. Í hálfleik, þegar staðan var 3:0 fyrir Kópavogsbúa, var ég til í að slá örlítið af kröfunum… og þegar yfir lauk fagnaði maður 3:3 jafntefli tryllingslega.

Framarar voru úti á þekju í rúmlega 70 mínútur. Blikarnir voru miklu betri – við gátum ekkert. Engin barátta. Ekkert að gerast, nema pirringur og tuð.

Þegar leið á seinni hálfleikinn fór Breiðablik að draga sig aftar á völlinn. Við fengum víti uppúr engu, skoruðum og heimamenn fóru á taugum.

Það sem eftir var börðust Framarar af ákefð og á þann hátt sem ég hef ekki séð til liðsins í mörg ár. Þorvaldur Örlygsson er búinn að gjörbylta þessu liði! Tvö mörk á lokamínútunum tryggðu annað stigið. Ef leikurinn hefði verið fimm mínútum lengri hefðum við unnið.

Á leiðinni heim voru drafafúlir Blikar að væla yfir að Framarar hefðu verið grófir og hleypt þessu upp í slagsmál. Þeir hefðu betur tekið aðeins á móti…

Grindavík á fimmtudag – ef Grindvíkingar verða búnir að hrista af sér svínaflensuna það er.