Þegar Icelandair segir upp tugum flugmanna eða Íslensk erfðagreining tilkynnir um enn eina hópuppsögnina, má búast við því að forstjórarnir mæti í sjónvarpið og útskýri að þetta hafi nálega engin áhrif á rekstur fyrirtækisins og verði mætt með skipulagsbreytingum. Auðvitað sjá flestir í gegnum svona málflutning. Það mætti vera furðulega rekið fyrirtæki þar sem þjónustan eða gæði starfseminnar skerðist ekki við að missa tugi manna. Hins vegar eru flugfélagið og ÍE fyrirtæki á markaði og því kannski ekki við öðru að búast en þau reyni að bera sig mannalega þegar gefur á bátinn.
Skringilegra er að sjá ráðherra ríkisstjórnarinnar setja sig í slíkar stellingar í tengslum við þann niðurskurð sem óhjákvæmilegur virðist vera. Það væri svo sem synd að segja að Ögmundur Jónasson sé léttur í lund í viðtölum vegna niðurskurðarins í heilbrigðiskerfinu – en hann fellur hins vegar í þá gryfju að tala um að þjónustan muni ekki skerðast og að tekist hafi að standa vörð um störfin. Hvorugt er þó raunin.
Niðurskurðurinn á Landsspítalanum mun leiða til verri þjónustu. Flóknara er það nú ekki.
Álag á starfsfólk mun aukast. Starfsánægja mun minnka og gæði vinnunnar í samræmi við það. Einhverjir sjúklingar munu fá lakari bót meina sinna en ella. Það mun valda óþægindum og sársauka. Lífsgæði hóps fólks munu skerðast.
Þetta vitum við flestöll innst inni. Heilbrigðiskerfið árið 2010 mun sinna okkur verr en það gerði 2008. Hversu mikla skerðingu í gæðum við erum tilbúin að þola er svo aftur spurning um pólitík.
Og þetta á heilbrigðisráðherra að segja hreint út. Þetta hefði hann átt að viðurkenna í sjónvarpsfréttunum í gær – í stað þess að hrökkva í þann gírinn að láta eins og niðurskurðurinn hafi ekki bein áhrif. Það eru nefnilega kaldar kveðjur til þess fólks sem nú er að missa vinnuna, þegar talað er eins og að brotthvarf þess skipti engu máli. Er þá verið að kveðja fólk með þeim orðum að vinna þess hafi verið til lítils og fyrst og fremst snúist um lélega skipulagningu?
Því það er fullt af fólki að missa vinnuna. Þrátt fyrir allt tal um að tekist hafi að „verja störfin“, er það ekkert annað en hópuppsögn sem nú á sér stað á Landsspítalanum.
Auðvitað er það hópuppsögn þegar á annað hundrað manns er látið fara frá vinnustað – fólk sem unnið hefur sömu störf og við hliðina á öðrum starfsmönnum spítalans. Þarna er inn á milli fólk sem starfað hefur við spítalann árum saman, án þess að fá fastráðningu. Nú er það látið fara undir því yfirskyni að verið sé að „verja störfin“.
Uppsagnirnar sem nú eiga sér stað á Landsspítalanum (og auðvitað er þetta ekkert annað en uppsagnir að öllu nema nafninu til) eru gagnlegar til að sýna fram á sparnað til skemmri tíma. Þarna er verið að láta ódýrustu starfsmennina fara, þá sem lægst hafa launin og minnstu réttindin – til lengri tíma er því sparnaðurinn takmarkaður. Kosturinn (frá sjónarhorni stofnunarinnar) er hins vegar sá að laus- og verkefnaráðnir starfsmenn njóta ekki uppsagnafrests. Þess vegna næst fram skammtímasparnaður.
Þetta minnir mig helst á það þegar ég var fulltrúi nemenda í sagnfræðiskor og við vorum að reyna að ná endum saman í rekstri skorarinnar. Þá var alltaf gripið til þess ráðs að skera niður lausráðnu stundakennarana, þótt hver kennslustund þeirra kostaði líklega innan við þriðjunginn af kennslu prófessoranna.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru ekki öfundsverðir af hlutskipti sínu næstu misserin. Þeir munu þurfa að skera grimmt niður og taka erfiðar ákvarðanir. En óskandi væri að við þyrftum ekki að horfa upp á fleiri svona feluleiki. Það er langhreinlegast að viðurkenna að verið sé að segja upp fólki og að þjónustan muni versna.