Það er hið besta mál að menn rífist um styttur – hvort þessi eða hinn eigi skilið að fá minnisvarða. Oft getur sá debat verið skemmtilegasti og frjóasti parturinn af ferlinu.
Ein rökin sem hvað oftast eru notuð gegn minnisvörðum (og líkneskjum sérstaklega) eru á þá leið að „þetta hefði hr. x ekki viljað“. Það eru vond rök – nema þá að menn séu almennt á móti myndastyttum af fólki (sem er svo sem alveg gilt sjónarmið).
Hversu margir þeirra sem nú eiga styttur af sér á stalli í Reykjavík hefðu svarað játandi spurningunni um hvort þá fýsti að fá koparlíkneski í sinni mynd? Hvenær var Jónas Hallgrímsson spurður? Eða Jón forseti? Hefðu Ingólfur Arnarson og Þorfinnur Karlsefni skilið spurninguna? – Jú, líklega má reikna með að Thorvaldsen hefði verið sáttur – styttan hans er sjálfsmynd…
Það gæti reyndar orðið mjög atvinnuskapandi fyrir sagnfræðinga og sálfræðinga að rýna í persónur sögunnar og ákveða eftirá hverjir hafi verið „styttu-týpurnar“ og hverjir ekki. Rökréttara er þó að taka þá grundvallarlínu að ef þú ert dauður – þá ertu ekki spurður.