BJ 87

Það magnaðasta við deilurnar innan Borgarahreyfingarinnar er hversu mikil heiftin er orðin – og samt eru þau enn ekki farin að rífast um peningana. Það er fyrst þegar peningarnir koma inn í spilið að allt fer í hund og kött.

Það er erfitt að stilla sig um að líkja stöðu mála í Borgarahreyfingunni nú við Bandalag jafnaðarmanna kjörtímabilið 1983-87. BJ var stemningsframboð sem náði fjórum þingmönnum – sem var fínn árangur en olli samt aðstandendunum vonbrigðum. Við fráfall formannsins var flokkurinn skilinn eftir á einskismannslandi. Þingflokkurinn ákvað að hætta að starfa undir merkjum BJ – þrír gengu til liðs við Alþýðuflokkinn, einn í Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar þingflokkurinn ákvað að stinga af, tók hann líka með sér peninginn. Þeir sem eftir sátu í Bandalagi jafnaðarmanna með sárt ennið – þingmanns- og peningalausir – ákváðu að berjast áfram ekki hvað síst til að geta rakið raunir sínar. BJ bauð fram 1987, en það framboð náði engu flugi og kosningabaráttan snerist að talsverðu leyti um að skammast út í hina svikulu félaga.

Það er auðvelt að ímynda sér að örlög Borgarahreyfingarinnar verði svipuð. Reynar skilst mér að reglurnar um greiðslur til flokkanna séu orðnar skýrari núna og ljóst hver fær hvað. Eitthvað segir mér að það muni ekki koma í veg fyrir deilur milli stjórnar og þingmanna Borgarahreyfingarinnar þegar kemur að peningamálunum síðar í haust.