Björgvin G. Sigurðsson ber sig aumlega á Pressu-síðu sinni og segir það lygi að vefsíðu hans hafi verið kippt úr loftinu um það leyti sem hrunið reið yfir. Ég hef því með síðustu færslu óaðvitandi tekið þátt í því að breiða út lygi – og þykir það afar miður.
Björgvin skrifar: Því skal hið rétta enn og aftur ítrekað: vefnum var lokað síðsumars 2008, mörgum vikum fyrir efnhags- og bankahrun. Af þeirri ástæðu einni að hann var lítt uppfærður mánuðum saman og úreltur í marga staði.
Sjálfsagt er að biðjast afsökunar á þessum miklu rangfærslum. En gott væri þó að fá nákvæmari dagsetningar frá ráðherranum fyrrverandi.
Hrunið svokallaða átti sér stað í lok september. Og síðan hafði samkvæmt þessu legið niðri í margar vikur – og ekki uppfærð í marga mánuði þar á undan.
Gott og vel. Afrit Landsbókasafnsins af síðu Björgvins er frá 15. júlí 2008. Tíu dögum fyrr hafði hann skrifað tvo stutta pistla og sett inn grein eftir sig úr Morgunblaðinu. Þar á undan hafði síðan verið með virkara móti, miðað við heimasíðu stjórnmálamanns – færsla á nokkurra daga fresti og blaðagreinar veluppfærðar.
Úr því að Björgvin sakar menn um lygar – þá væri mjög til bóta að fá nákvæmari dagsetningu á því hvenær hann kippti vefnum úr loftinu. Það væri nefnilega fróðlegt að fá að vita hvaða dagsetning á almanakinu nær því að vera mörgum mánuðum eftir 4. júlí en mörgum vikum fyrir síðustu vikuna í september.
– Í leiðinni mætti gefa upp nafnið á vefhönnuðinum sem telur það nauðsynlegt að taka heimasíður úr loftinu til að hægt sé að vinna að breytingum á þeim.