Gula ógeðið skín og steikir mig á skrifstofunni. Óstuð! Alltof heitt til að vinna og gestir forðast söfn í svona veðri.
Eina rétta í stöðunni er að hanga á netinu.
Það er merkilegur andskoti þegar maður dettur niður að skoða blogg, hversu rútínubundið það verður. Maður les sömu síðurnar aftur og aftur, en aðrar – þó áhugaverðar séu komast ekki inn í rútínuna.
Þetta gildir sérstaklega um útlenskar bloggsíður. Ég reyni að fylgjast með 5-6 útlenskum bloggurum og út frá þeim rambar maður inn á fjölda annarra góðra penna. Sjaldnast les maður þá samt nema einu sinni. Það eru jú takmörk hvað er hægt að halda mörgum boltum á lofti í einu.
19. hæðin er gott blogg eftir Mark Siegel, bandarískan lögfræðing sem þjáist af mænurýrnun og er bundinn við hjólastól. Ég las bloggið hans fyrir margt löngu og steingleymdi honum svo aftur. Á dag rambaði ég svo inn á síðuna aftur. Færslan hans frá 16. júlí er með skemmtilegum pælingum. Þetta er maður sem vert er að lesa reglulega.