Senn líður að því að redda þurfi nýjum bílstól/um fyrir soninn. Það er bögg og vesen. Best væri að geta fengið stól í gegnum tryggingafélagið – en VÍS hefur trú á biðlistum og segist ekkert geta sagt til um hvort slíkur stóll lægi á lausu eftir viku eða fimm vikur.
Og svo er það spurning um framvísandi eða bakvísandi stól.
Allir upplýsingapésar eða heimasíður sem fjalla um bílstóla hamra á þeim sannindum að bakvísandi stólarnir séu miklu öruggari… eiginlega svo miklu öruggari að það sé tómt mál að tala um að nota framvísandi stól.
Ég er ekki sannfærður. Auðvitað dreg ég ekki í efa að það sé betra fyrir barnið að snúa bakinu í akstursstefnuna ef bílinn fær á sig högg. Það er einföld eðlisfræði.
Hins vegar finnst mér vanta inn í útreikningana hvaða áhrif það hafi á slysatíðnina ef barn snýr baki við ökumanni? Það er nefnilega fráleitt að foreldri undir stýri geti látið eins og barn í aftursæti sé ekki til. Grenjandi krakki tekur alltaf til sín athygli ökumannsins, hann stressast upp og verður þar með verri og hættulegri ökumaður. Með framvísandi bílstól getur ökumaðurinn haft auga með barninu og náð að róa það eftir föngum.
Með því að keyra með bakvísandi, óvært barn í aftursæti rýkur streitan upp úr öllu valdi. Og þannig er ökumaðurinn hættulegastur.
Ég myndi a.m.k. vilja heyra rökin fyrir að þessu sé á annan veg farið.