Páll Baldvin skrifar leiðara Fréttablaðsins í dag og fjallar um persónukjör. Hluti pistilsins var ómerkilegur en hefðbundinn skætingur, s.s. að kalla Vinstri græna „stalínista“. Menn verða bara að eiga við sjálfa sig hvað þeim finnst smekklegt í þeim efnum.
Verra var að sjá Pál Baldvin falla í þá gryfju að hafa ekki lesið frumvarpið sem hann þó var að verja í pistlinum. Honum til varnar má þó segja að mögulega hefur hann lesið greinargerðina sem því fylgir.
Það galnasta við kosningalagafrumvarpið sem nú liggur fyrir þinginu er einmitt sú staðreynd að greinargerðin passar ekki við frumvarpið. Í greinargerðinni er hugtakið persónukjör skilgreint á tiltekinn hátt. Fyrirmyndin að þeirri skilgreiningu er sótt í írska kosningakerfið. Svo er púðri eytt í að ræða um kosti írska kerfisins.
Frumvarpið sjálft – sjálfur lagatextinn – er hins vegar allt öðru vísi. Hann felur í sér að í öllum meginatriðum er verið að taka upp finnska kosningakerfið. Svo er talað út í eitt um persónukjör – þrátt fyrir að ALLS EKKI sé verið að fara eftir skilgreiningunni á því sem sett er fram í sjálfri greinargerðinni!!!
Þetta er álíka skynsamlegt og röksemdafærslan: Manchester United er frábært lið, Rooney er uppáhaldsleikmaðurinn minn og stemningin á Old Trafford er æðisleg. Um þetta geta allir verið sammála – og þess vegna skulum við fara á leik með Liverpool.
Páll Baldvin hefur væntanlega bara lesið greinargerðina og blæs því á allar gagnrýnisraddir með því að segja að það sé komin margra ára reynsla á kerfið á Írlandi! Annars afgreiðir Silja Bára þetta ágætlega í þessum pistli.
Ég verð hins vegar að viðurkenna það, að eftir að hafa atast í því í marga mánuði að benda á að þetta frumvarp sé meingallað – með greinargerð sem tali um Írland en lagatexta sem miðar við Finnland – þá er það ansi hvimleitt að fá aldrei málefnalegri andsvör en þau að maður sé Stalínisti.
Og þó – ef Stalínismi er það að nenna að leggja það á sig að lesa yfir lagafrumvörpin sem maður er að tjá sig um, þá er kannski bara ágætt að tilheyra þeim söfnuði. Ekki hvað síst eftir að búið er að endurskilgreina hugtakið Lenínismi sem andstaða við stóriðjustefnu…