Í umræðunum um upphaf landnáms á Íslandi síðustu daga, hefur nokkuð borið á því að menn dragi fram í umræðuna þau rök að eitthvað skrítið hljóti að vera á bak við það að Ingólfur Arnarson (hafi hann yfirhöfuð verið til) skuli hafa sett bæ sinn niður í Reykjavík. Þeir sem ekki trúa því að Ingólfur hafi einfaldlega verið forlagatrúar og látið öndvegissúlurnar ráða bólstað sínum, láta að því liggja að staðarvalið hljóti að skýrast af því að aðrir hafi verið á fleti fyrir.
En er það svo víst?
Í fyrsta lagi mætti svo sem alveg ímynda sér að öndvegissúlusagan sé sönn. Annað eins hefur gerst og að menn hafi tekið stórar ákvarðanir byggðar á tilviljunum eða duttlungum.
Í öðru lagi er meira en líklegt að landnámsmenn hafi lagt annað mat á landkosti en seinni tíma ábúendur. Vissulega var Reykjavík ekki mikilvægur staður frá því fáeinum áratugum eftir landnám og þar til danskt konungsvald fór að hreiðra þar um sig. En megnið af þeim tíma voru búskaparhættir líka talsvert aðrir en búast má við að þeir hafi verið í fyrstu.
Setjum okkur í spor Ingólfs Arnarsonar og Hallveigar Fróðadóttur. Þau hljóta að hafa horft til hlunninda og þar hafði Faxaflóinn upp á margt að bjóða. Hér hefur verið selur og jafnvel rostungur. Allt fullt af fugli – ekki hvað síst geirfugli, sem var hægfara kjötfjall sem beið eftir að láta rota sig. Bestu fiskimið landsins voru svo rétt fyrir utan.
Frá sjónarhorni nýbúa frá Noregi, hlýtur hins vegar að hafa vegið hvað þyngst sá munaður að hafa lágar smáeyjar rétt úti fyrir landi. Landnemarnir hafa stefnt að því að rækta korn og halda skepnur. Með Engey, Viðey og Akurey í kálgarðinum gafst færi á að hafa akra í sumum eyjunum, en láta búsmalann ganga lausan í öðrum. Þannig þurfti ekki að leggjast í mannaflsfreka byggingu garða.
Spölkörn fyrir ofan nýja bæjarstæðið var svo kjarri vaxin Hellisheiðin og vænlegir tökustaðir fyrir mýrarrauða. Víkurbændur þurftu því ekki að hafa áhyggjur af járnvinnslunni.
Og síðast en ekki síst má ekki gleyma því að landnemarnir hljóta að hafa þurft að tryggja öryggi sitt og hafa í huga möguleikann á árás óvina. Slík árás hefði komið frá hafi og Reykjavík er ágætlega í sveit sett upp á að njósn berist af óvinaflota í tíma. Það var ekki fyrr en síðar að íslenskar valdamiðstöðvar þurftu fremur að taka mið af hættunni af árás af landi.
Að þessu samanteknu sýnist manni að Vík hafi bara verið fjári gott bæjarstæði. Það þurfi því engar samsæriskenningar til að skýra staðarvalið – jafnvel þótt við leggjum ekki trúnað á söguna um öndvegissúlurnar.