Sagan öll, hið ágæta tímarit Illuga Jökulssonar, barst inn um lúguna í dag. Þar er meðal annars umfjöllun um sögu sápuóperunnar. Fjallað er um bandarísku sápuna (þar sem glamúrinn og auðæfin eru alls ráðandi), áströlsku sápuna (þar sem fallegt millistéttarfólk í úthverfum lifir dramatísku hversdagslífi) og suður-amerísku sápuna (þar sem öskubuskuþemað er allsráðandi).
Í þessari annars ágætu úttekt er stórkostleg gloppa – það vantar bresku/evrópsku sápuna. Einkenni hennar er að persónurnar eru fátækari, ófríðari og lifa ófullnægðari og óhamingjusamari tilveru en gerist og gengur í sápum. Hið fullkomna dæmi um þetta er Eastenders.
Engum leikara í Eastenders væri hleypt í sjónvarp í Bandaríkjunum. Til þess eru þeir einfaldlega ekki nógu fríðir. Aðalsöguhetjurnar eru úr verkamannastétt, atvinnuleysingjar, öryrkjar eða smáatvinnurekendur. Og flestir eru vansælir, sviknir og beiskir megnið af tímanum. Að öllu öðru leyti eru lögmál sápunnar í heiðri höfð.
Ég horfði á Eastenders í tæpt hálft ár. Missti varla af þætti og las meira að segja slúðrið um leikarana í blöðunum. Þegar kom að dramatískum þáttum, reyndu bresku götublöðin meira að segja að skúbba plottinu. Ég ætla að byrja aftur að horfa á sápur þegar ég fer á elliheimilið. En það þurfa helst að vera breskar sápur – ég efast um að ég myndi höndla ástralska suburbiu eða ameríska milla…