Reyndu bara að byggja kristna kirkju…

Jónas Kristjánsson gagnrýnir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Sviss, þar sem múslimum í landinu er bannað að reisa bænaturna. Í Sviss aðhyllist um fimm prósent íbúanna Íslam – það er álíka fjöldi og allir Íslendingar. Fyrst og fremst er hér um að ræða innflytjendur og afkomendur innflytjenda frá Balkanskaganum.

En Jónas er þó ekki sáttur við að Egyptar leyfi sér að amast við banni Svisslendinga. Hann skrifar: Reyndu bara að byggja kristna kirkju í tiltölulega hófsömu múslimalandi á borð við Egyptaland. Þú færð það ekki. Samt amast Egyptar við niðurstöðunni í Sviss. Það sýnir, að vandamál bjálkans í eigin auga finnst víðar en í biblíunni.

Þessi romsa – um að kirkjubyggingar séu bannaðar í hinum íslamska heimi er margþvæld. Hún kemur hins vegar okkur spánskt fyrir sjónir, sem fylgdumst með í landafræðitímunum í gaggó.

Við munum nefnilega að í Egyptalandi er stórt samfélag kristinna manna. Líklega eru um fimmtán prósent Egypta kristnir og tilheyra flestir koptísku rétttrúnaðarkirkjunni eða öðrum austrænum kirkjudeildum. Kirkjur þessara söfnuða eru glæsileg og víðfræg mannvirki.

Þetta þýðir að mun fleiri Egyptar eru í koptísku kirkjunni en sem nemur íbúafjölda Sviss. Og smáleit á netinu leiðir í ljós að smásöfnuðir mótmælenda (væntanlega fyrst og fremst Kalvínista) í Egyptalandi telja álíka marga meðlimi og múslimar eru í Sviss.

Reyndu bara að byggja kristna kirkju í Egyptalandi – segir Jónas. Og sjá, það er einmitt það sem fjöldi fólks hefur gert. Um þetta má t.d. fræðast hér.