Reykjavíkurreyfari

Ég hef enn ekki komist í að lesa Bókatíðindi þessa árs almennilega. Það skýrist að hluta til af því að bókaútgefendur eru eiginlega búnir að eyðileggja þetta annars ágæta rit með því að fylla það af endurútgáfum, kiljuútgáfum og hljóðbókum. Fyrir vikið finnst manni að meirihluti verkanna í bæklingnum sé 1-3 ára gamall og þá nennir maður ekki að lesa. (Af hverju má ekki auðkenna á einhvern hátt nýjar bækur?)

Fyrir vikið hef ég ekki almennilega náð að fylgjast með því hvað er að koma út fyrir jólin og fátt sem ég er verulega spenntur fyrir. Jú, mig langar reyndar í 18. aldar bókina frá JPV.

Við lestur Fréttablaðsins í dag bættist svo bók á óskalistann, sem algjörlega hafði farið framhjá mér. Páll Baldvin skrifaði þar lofsamlegan dóm um skáldsögu Helga Ingólfssonar: Þegar kóngur kom. Þetta mun vera hnausþykkur reyfari sem gerist í Reykjavík þjóðhátíðarárið 1874. Sögusviðið eitt og sér nægir til að vekja áhuga minn.

Helgi Ingólfsson er gamli listasögukennarinn minn frá síðasta árinu í MR. Tímarnir hjá honum voru einhverjir þeir allra skemmtilegustu og minnisstæðustu frá menntaskólaárum mínum. Kennslan fór fram í hátíðarsalnum í Gamla skóla, sem var ágæt umgjörð fyrir slædsmyndasýningar með öndvegislistaverkum mannkyns.

Þennan vetur sendi Helgi frá sér fyrstu skáldsöguna – fyrri bók í tvíleik sem gerðist í Rómarveldi til forna. Þær bækur voru að springa af fróðleik, þar sem sagnfræðingurinn Helgi hafði legið yfir aragrúa heimilda og fléttaði inn í söguna allar helstu persónur og atburði tímabilsins. Þessar sögur er vanmetnar. Í það minnsta sé ég ekki oft vísað til þeirra.

Eftir Rómverjasögurnar skipti Helgi gjörsamlega um kúrs. Hann sendi frá sér þrjár eða fjórar bækur sem eiga það sameiginlegt að vera stuttar, gamansamar afþreyingabækur sem gerast í samtímanum. (Maður klárar bókina á dagparti í sumarbústað eða á sundlaugarbakka.) Held að allar þessar bækur hafi bara komið út á kiljuformi. Ein þeirra var reyndar kvikmynduð á dögunum með Ladda í aðalhlutverki.

En nú er Helgi sem sagt aftur búinn að snúa sér að sögulega efniviðnum. Nýja glæpasagan er víst í anda Rómverjabókanna og það eru meðmæli. Best að enda á yddaðri tilvitnun (ef útgefandinn þarf á slíku að halda fyrir auglýsingar): Ég heimta þessa bók í skóinn!