Stjörnuspár Tímans og síðar Dags-Tímans voru einhver fyndnasta lesning íslenskra dagblaða á sínum tíma. Af hverju fer sá þunglyndi ekki á fund ritstjóra Fréttablaðsins og heimtar að fá að skrifa stjörnuspá á hverjum degi? Þá væri kannski von til þess að ég yrði lengur en 25 sekúndur að lesa blaðið á degi hverjum og fylltist gleði og tilhlökkun þegar ég hleyp á typpinu fram á gang eftir blaðinu. (Það er með ólíkindum að ég skuli aldrei hafa hlaupið í flasið á Benedikt á efri hæðinni við þessar aðstæður…)
Fyrir margt löngu birti ég greitest hits úr stjörnuspám Tímans. Nenni ekki að slá upp hverjum, þannig að ég vel bara nokkrar sem mig minnir að hafi ekki flotið með síðast:
Vatnsberinn – 20.jan.-18.febr.
Vatnsberinn býður vinafólki sínu heim og spilar „scrabble“ og drekkur rauðvín í kvöld. Það verður illa séð þegar okkar maður býr til orðið „bgúrka“ sem hann mun skilgreina sem slappa agúrku.
Ljónið – 23.júlí-22.ágúst
Þú vegðug gogmæltug í dag.
Vatnsberinn – 20.jan.-18.febr.
Vatnsberinn frýs í slyddunni og starir út í skammdegið. Svo viðkvæmur.
Sporðdrekinn – 24.okt-24.nóv.
Sonur þinn gerir uppreisn í kvöld og ákveður að það sé nammidagur. Hann mun geifla sig og gretta og ýlfra. Sennilega er eina ráðið að gefa honum jagermaster.
Nautið – 20.apríl-20.maí
Nú er aftur farið að skyggja og þú ákveður að taka upp gömlu góðu bókarheitin í kvöld og leikur símaskrána. Hæli í nánd.
Krabbinn – 22.júní-22.júlí
Þér tekst með harðfylgi að kaupa hálfan kjúlla í matinn og mikið verður um dýrðir í kvöld, kokkteilsósa og allt. Upp kemur sú hugmynd við borðið að gera heimildarmynd um þessa sjaldséðu fugla. Hún gæti heitið „Hænsnið flýgur“.
Jamm.