Þriðjudagur til þrautar…
Stóri sívalningurinn hér að neðan er svonefnd sperrimúffa. Múffur þessar voru sérstaklega smíðaðar fyrir Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Með henni voru tvö kerfi sameinuð – annars vegar ameríska gasstrengjakerfið en hins vegar evrópska olíustrengjakerfið. Hægra megin á múffunni sést olíustrengurinn en vinstra megin gasstrengurinn. Miðhlutinn var til þess að einangra þann búnað sem tengdi þessa tvo hluta saman.
Já, þeir geta verið skemmtilegir skýringatextarnir á Rafminjasafni Orkuveitunnar. Undanfarna daga og vikur hef ég verið að grípa í að stokka upp sýninguna á safninu. Fyrsta skrefið hefur verið að setja upp skemmtilega sýningu tengda jarðlínunni, en síðan ætla ég að fikra mig út í loftlínuna. (Þótt strangt til tekið hefði kannski verið eðlilegra að vinna þetta í hina áttina.)
Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera fremur dauflega hluti að skemmtilegum sýningargripum ef framsetningin er í lagi. Tökum sem dæmi sperrimúffuna sem textinn hér að ofan vísar til. Hún er í sjálfu sér nokkuð merkilegur gripur og vekur athygli gesta út af stærð. Núna hins vegar, vegna þess að við Óli Guðmunds erum búnir að koma upp díóðulýsingu í henni, þá stoppa allir gestirnir vel og lengi og virða hana fyrir sér.
Sömu sögu er að segja af gripunum frá jarðlínudeildinni. Á tíu ár hafa þessir sömu gripir og þessar sömu ljósmyndir og við erum nú að leika okkur með, staðið út í horni eða legið í sýningarskápum. Nú höfum við hins vegar tekið eina myndina og stækkað upp í átta fermetra til að búa til bakgrunn, sett upp tjald eins og vinnuflokkarnir notuðu, útbúið ljósmynd í fullri líkamsstærð þannig að það virðast vera menn að störfum í tjaldinu og loks settum við díóður í prímusinn fyrir tinbræðslupottinn þannig að hann virðist vera logandi. – Snilld!
* * *
Á gær kom Kjartan í heimsókn og horfði á sína menn í Arsenal nánast klára ensku deildina. Hann er í dag að skila inn ritgerðinni sinni í lagadeildinni og mun útskrifast í sumar. – Til hamingju Kjartan!
* * *
Sá fúli þrjótur Þór Steinarsson vogar sér að atyrða greinabálk minn um fána veraldarinnar á síðunni sinni. Til að bíta höfuðið af skömminni lýsir hann svo stuðningi við Tyrkjaskrifelsi Sverris, en það er sá armi Óli Njáll sem spanar fólk upp í að lesa þá langhunda. – Þetta er mér að meinalausu, enda er lesturinn á fánagreinunum á Múrnum svo mikill að ekki munar um kepp í sláturtíð.
* * *
Nú styttist í HM í fótbolta. Ef ég væri ekki svona önnum kafinn í vinnunni, við að skipuleggja ráðstefnu og að framleiða barmmerki, væri ég orðinn viðþolslaus af spenningi.
Senn líður að því að ég þurfi að ákveða með hverjum skuli halda í keppninni. Ekkert væri þó púkalegra en að velja bara eitt lið og gefa skít í öll önnur. Þvert á móti á maður að halda með mörgum liðum – einu sem á raunhæfan möguleika á að vinna en öðrum sem maður styður til allra góðra verka.
Við Óli Jó höfðum um langt skeið haldið hvor með sínu liðinu á HM. Ég hef alltaf verið sökker fyrir Argentínu en hann fyrir Þjóðverjum. Eins og gefur að skilja fer þetta ekki mjög vel saman. Þess vegna ákváðum við fyrir EM 1996 að komast að samkomulagi. Ég myndi hætta að halda stíft með Argentínu á stórmótum og hann myndi sleppa Þjóðverjunum. Á staðinn veðjuðum við á Frakka. Þeir ollu vissulega vonbrigðum 1996, en 1998 og 2000 stóðu þeir fyrir sínu. – Ég býst við að halda þetta samkomulag nú í ár og styðja Frakka sem heimsmeistara.
En víkjum nú að hinum liðunum mínum á HM:
a-riðill: Frakkland, Senegal, Uruguay, Danmörk. – Hér er valið einfalt. Frakkarnir vinna að sjálfsögðu og svo vona ég að Uruguay lendi í 2. sæti. Uruguay var mitt lið 1990, með Enzo Fransescoli fremstan í flokki. Útkoma þeirra olli vonbrigðum, en maður svíkur ekki gömul uppáhaldslið. – Dani þoli ég ekki frá allri móðursýkinni í kringum það lið 1986 og 1992. – Senegal mætti alveg vinna Dani mín vegna.
b-riðill: Paraguay, Suður Afríka, Spánn, Slóvenía. – Hér á ég ekkert lið í neinu sérstöku eftirlæti. Paraguay er samt skaplegasti kosturinn – þó ekki væri nema vegna Chilaverts.
c-riðill: Brasilía, Kína, Tyrkland, Kosta Ríka. – Æi. Af hverju þurftu Brassarnir að fá svona léttan riðil? Vonandi verða Kosta Ríka-menn ekki leiknir of grátt. Annars er mér skítsama.
d-riðill: Portúgal, Bandaríkin, Suður Kórea, Pólland. – Humm. Það tekur sig varla að hafa skoðun á þessum riðli. Portúgal vinnur með hendur fyrir aftan bak og baráttan um annað sætið verður milli heimamanna og Pólverja. Pólverjar voru fínir 1982 – ætli maður styðji þá ekki bara aftur?
e-riðill: írland, Kamerún, Sádi Arabía, Þýskaland. – Urgh! Hér er mér illa við öll keppnislið. írarnir eru þó svo sjarmerandi vont fótboltalið að það er ekki hægt annað en að styðja þá.
f-riðill: Argentína, Nígería, England, Svíþjóð. – Hér verða Argentínumenn að vinna. Og mikið óskaplega væri skemmtilegt ef Englendingar féllu úr keppni. Þá yrði þjóðhátíð hjá Skotum.
g-riðill: Mexíkó, Ekvador, Króatía, ítalía. – Þetta er sennilega skemmtilegasti riðillinn. Ekvador verður maður vitaskuld að styðja – þeir eru spútniklið Suður-Ameríku um þessar mundir. Mexíkó? Af hverju ekki?
h-riðill: Japan, Belgía, Rússland, Túnis. – Ofboðslega er þetta slappur riðill. Ætli Japan fari ekki upp úr riðlinum – sennilega ásamt Rússum? Annars er tilgangslaust að velta sér upp úr þessum riðli. Þessi lið verða öll fallbyssufóður í næstu umferð.
– Nema hvað! Dyggir lesendur mega búast við langhundum um HM á næstunni.