Ég mætti ekki á kjörstað í dag. Ég tók heldur ekki þátt í síðustu almennu atkvæðagreiðslu sem boðið var uppá. Það var flugvallarkosningin í Reykjavík.
Það er skemmtilegt að bera þessar kosningar saman. Flugvallarkosningin var sérstakt áhugamál Samfylkingarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík tók hins vegar þann pól í hæðina að kosningin væri fáránleg og megnaði ekki að sýna hug íbúanna. Sjálfstæðismenn hvöttu fólk til að sitja heima og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, Inga Jóna Þórðardóttir lét ekki sjá sig á kjörstað.
Þetta töldu sumir R-listamenn vera ægilega vanvirðingu við lýðræðið.
Núna, tæpum tíu árum seinna voru hlutverkaskipti í leikritinu. Jóhanna Sigurðardóttir var komin í hlutverk Ingu Jónu sem sagðist ekki ætla að mæta – en formaður Sjálfstæðisflokksins var í gömlu rullunni hennar Ingibjargar Sólrúnar.
Og auðvitað eru klappliðin og þeir sem púa búnir að skipta um hlutverk líka…