írmann bloggar um geitunga og þá sérstæðu áráttu íslenskra fjölmiðla að birta endalausar fréttir af geitungabúum á hverju ári. Þetta er undarlegt helvíti, enda eru geitungar orðnir hluti á dýraríkinu hérlendis og því jafnfráleitt að taka viðtal við svekktan garðeiganda með geitunga á lóðinni sinni og sumarbústaðaeiganda sem kljáist við músagang.
Geitungar trufla mig ekki, enda hef ég sárasjaldan verið stunginn af þeim. Milli mín og geitunga virðist ríkja gagnkvæmur skilningur. Þeir ráðast ekki á mig og ég ræðst ekki á þá. Þeir borða ekki matinn minn og ég leyfi þeim að éta skítinn á gólfinu hjá mér. Ekki mjög flókið.
Illu heilli virðist annað fólk ekki hafa góðan skilning á þessari tilhögun. Oftar en ekki bregst það við geitungum með því að stökkva upp til handa og fóta, ráðast gegn þessum meinlitlu flugum og raska ró þeirra. Þetta er mér fullkomlega óskiljanlegt athæfi.
Steinunn (sem er pínulítið sár yfir að enginn tjái sig í kommentakerfinu hennar) er mikill smákvikindadrápari. Hún drepur húsaflugur, sem að mínu mati er hreinn skepnuskapur og á meira að segja til að flæma burtu köngulær. Þóra systir er þó hálfu verri með þetta, því hún fæst varla til að vera í sama herbergi og hrossaflugur – sem alltaf hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér.
Flugur og köngulær eru sem sagt skemmtileg kvikindi. Því miður er ekki nóg af maurum á Íslandi. Spurning hvort við förum ekki að fá almennilega maurastofna ef sumrin halda áfram að vera svona góð? Ég myndi í það minnsta fóðra maurana í garðinum mínum á sykri – það er áreiðanlegt!
* * *
Sheff. Wed. féll út úr deildarbikarnum í gær. Votta stuðningsmönnum samúð mína. Þetta tímabil gæti orðið erfiðara en vonast var til…