Mannekla hvað?

Dómskerfið barmar sér undan álagi. Lögregluembættin í landinu líka. Vegna efnahagshrunsins hafa hrúgast upp mál, ofan á öll gjaldþrotamálin, til viðbótar við það sem gerist í meðalári. Á sama tíma er erfitt að fá nýjar fjárveitingar. Það er kallað eftir fleiri dómaraembættum, fleiri lögreglumönnum og auknu fangelsisplássi.

Með þessu er auðvelt að hafa samúð. Þangað til að maður heyrir sögur af ruglmálum sem kerfið leyfir sér að rekast í á þessum meintu annatímum.

Ég hitti í vikunni mann sem var annað hvort leiddur fyrir dómara í dag – eða hvort það verður gert á mánudaginn (er búinn að gleyma dagsetningunni). Þá verður dómtekin ákæra á hendur honum. Málsatvik voru þessi:

Viðkomandi maður stóð fyrir framan bandaríska sendiráðið með skilti, sem á var letrað slagorð gegn Íraksstríðinu.

Lögreglumaður kom til hans og bað hann um að færa sig yfir götuna. Mótmælandinn sagðist ekki sjá ástæðu til þess og benti lögreglumanninum á að hann væri að mótmæla stefnu og verknuðum Bandaríkjastjórnar og þess vegna stæði hann fyrir framan bandaríska sendiráðið, fólkið sem byggi í húsinu hinu megin við götuna hefði ekkert til saka unnið og því skrítið að lögreglan væri að stefna mönnum á stéttina þeirra til mótmæla.

Þá breytti lögreglumaðurinn beiðni sinni í skipun. Okkar maður neitaði aftur að færa sig og var handtekinn.

Lögregluyfirvöld í Reykjavík geta sem sagt leyft sér þann munað að eyða tíma og peningum skattborgara í að reka mál útaf svona stórglæpum á sama tíma fólk er latt til að kæra ofbeldisbrot eða þjófnaði með þeim rökum að það hafi ekkert upp á sig.

Sérkennileg forgangsröðun.