Panini (b)

Sumarið 1987 fórum við fjölskyldan í sumarfrí til Bretlands. Tókum fyrst viku eða þar um bil í að sigla á báti um skipaskurðina og árnar í Norfolk. Enduðum svo norður í Skotlandi í Edinborg. Ég var tólf ára og með aðeins önnur áhugamál en mamma, pabbi og amma heitin, sem var líka með í för.

Jújú, það var fínt að vera í útlandinu. Og ekki lakara að vera í Bretlandi, sem maður gjörþekkti í gegnum fótboltann. Ég gat samt ekki lesið ensku svo neinu næmi og kláraði íslensku bækurnar mínar á mettíma.

…en svo fór ég í sjoppu. Og sjá – þar voru seldir Panini-límmiðar frá HM 1986. Þetta voru jólin, páskarnir og afmælið mitt – allt í einum pakka.

Á Íslandi voru ekki seldir Panini-límmiðar. Þeir einu sem áttu fótboltaspjöld eða límmiða voru þeir sem höfðu búið í útlöndum eða nutu sérstakra tengsla.

Mamma og pabbi sáu strax að þetta var leiðin til að halda mér góðum. Alla ferðina – í hverri sjoppu eða kjörbúð, var dælt í mig Panini-spjöldum og ég var til friðs næstu klukkutímana. Þegar heim var komið splæsti pabbi í að panta límmiðana sem vantaði. Fyrir vikið eignaðist ég komplett allt safnið fyrir HM 1986!!! Ó, dýrðardagar.

Í dag eru fótboltaspjöld og -límmiðar daglegt brauð. Meira að segja of daglegt brauð. Á hverju ári sendir hr. Panini frá sér nýja seríu fyrir ensku úrvalsdeildina og aðra fyrir tilfallandi stórmót. Eitthvað segir mér að ofsakæti strákanna (og jú, stelpnanna) sem safna þessu, sé ekki viðlíka og hjá mér þegar ég komst í HM-miðana 1987.

Í netnördaskap mínum rambaði ég inn á síðu um fótboltaspjöld. Hún er fróðleg fyrir margra hluta sakir.

Sérstaka athygli vekur þessi klausa: Euro Football 77. Another ‘international’ Panini collection which was available in the U.K. through the distributors, Minicards Ltd. An album was available for the stickers. Some copies of the album were distributed for free through the Shoot/Goal magazine.

og

Countries include: Belgium, Bulgaria, Czechoslovakia, Denmark, Germany, England, Spain, France, Greece, Switzerland, Ireland, Iceland, Italy, Yugoslavia, Cyprus, Hungary, Malta, Holland, Norway, N. Ireland, Austria, Poland, Portugal, Rumania, Scotland, USSR, Finland, Sweden, Turkey and Wales.

Muu…

Ísland með í Panini Evrópu-spjöldum 1977??? Af hverju hefur maður ALDREI heyrt um þetta? Kannast nokkur lesandi þessarar síðu við að hafa séð þessi ósköp? Erum við að tala um myndir af landsliðinu? Búbba? Ásgeiri? Þetta vekur fleiri spurningar en svör…