Furðuvefurinn AMX víkur að mér í framhjáhlaupi aftast í setningu í stuttum pistli í dag. Mér sýnist að þar takist pistlahöfundi að koma inn fimm villum í stuttri aukasetningu. Það hlýtur að vera met. Í pistlinum segir:
„Það sem vekur sérstaka athygli smáfuglanna er að vinstristjórnin í Reykjavík sem nú hefur verið mynduð ákvað að úthýsa öfgafemínistanum Sóleyju Tómasdóttur sem varð efst í forvali VG með umdeildum aðferðum sem leiddu til afsagnar Stefán Pálssonar, forseta kjörstjórnar.“
Í fyrsta lagi (og það er nú léttvægast), þá er „forseti“ ívið of stór titill. Formaður kjörstjórnar hefði verið nær lagi.
Í öðru lagi var það allur hópurinn sem steig til hliðar, ekki ég einn.
Í þriðja lagi er það rangt að einhverjar óskilgreindar „aðferðir“ einhvers frambjóðandans hafi ráðið þeirri niðurstöðu (enda mjög órökrétt að kjörstjórn segi af sér út af einhverju sem frambjóðandi gerir eða gerir ekki). Þvert á móti staðfesti kjörstjórnin það í þrígang að allir frambjóðendur hefðu farið að reglum. Þeirri staðreynd verður ekki breytt, þótt ýmsir reyni að endurskrifa söguna.
Í fjórða lagi hef ég aldrei skilið umræðuna um að kjörstjórnin hafi sagt af sér (þótt vissulega hafi sumir fjölmiðlar talað á þeim nótum á sínum tíma). Forvalinu var einfaldlega lokið og kjörstjórnin búin að skila af sér störfum. Hvernig á stjórn sem hefur lokið störfum að segja af sér? Það er álíka rökrétt og ef Hera Björk myndi núna senda frá sér tilkynningu um afsögn sína sem söngvari íslenska Evróvisíonlagsins… (Hvernig er það ætlar ICY-tríóið ekki að fara að axla ábyrgð á óförum Gleðibankans og segja af sér?)
Í fimmta lagi þá hafði verið gert ráð fyrir því að fulltrúar í kjörstjórninni settust í uppstillingarnefnd að forvali loknu, til að ljúka við að raða upp í neðri sæti listens. Það var þetta uppstillingarnefndarhlutverk sem við fimmmenningarnir báðumst undan að gegna. Ástæðan var einfaldlega sú að ef vel ætti að vera þyrfti slík uppstillingarnefnd að geta unnið náið með efstu frambjóðendum og vera þokkalega óumdeild.
Brotthvarf okkar fól því ekki í sér annað en viðurkenningu á þeirri augljósu staðreynd að ýmsir frambjóðendur og flokksmenn voru óhressir með okkur – og þá mig sérstaklega. Frambjóðendur eru mikilvægari en uppstillingarnefndir, svo þessi niðurstaða var einföld og rökrétt.