Fréttin af þríhliða viljayfirlýsingu Landsvirkjunar, kínversks banka og verktakafyrirtækis frá sama landi hljómar kunnuglega. Á mannamáli þýðir hún væntanlega að Kínverjarnir redda lánsfé fyrir næstu stórframkvæmdir Landsvirkjunar, ef þeir fá verkið. Og þar sem peningastofnanir standa ekki beinlínis í röðum að fá að lána okkur fjármuni, mun þetta tryggja Kínverjunum samninginn.
Gylfi Arnbjörnsson er foxillur á Pressunni.
Sjálfum finnst mér þessi þróun mála vera forvitnileg í ljósi þess hversu mjög henni svipar til þess sem gerðist fyrir 75 árum síðan.
1998 skrifaði ég grein í Sagnir, tímarit sagnfræðinema, um aðdraganda Ljósafossvirkjunar og lánsfjárleit Reykjavíkurbæjar. Efnið er dramatískara en lýsingin gefur til kynna. T.d. reið hún Jóni Þorlákssyni að fullu. Hann átti við erfið veikindi að stríða, en í stað þess að hvílast og freista þess að ná bata, flengdist hann um Evrópu til að tryggja fjármagnið og dó í kjölfarið.
Greinin vakti svo sem ekki mikla athygli. Ég hef í það minnsta hvergi séð vísað í hana, enda bar hún þess merki að vera samin uppúr námskeiðsritgerð í Háskólanum og stór hluti hennar var endursögn á kunnum atriðum.
En megin niðurstöður mínar voru e-ð á þessa leið:
Reykvíkingar lögðu af stað í lánsfjárleit fullir bjartsýni. Markmiðið var að taka u.þ.b. 110% lán fyrir virkjuninni. Það átti sem sagt að fjármagna hana upp í topp með erlendu lánsfé og nota það sem umfram yrði til að breyta gömlum lánum.
Aðaltrompið töldu menn að væri útreikningar á virkjanlegu vatnsafli í Soginu og spár um byggðaþróun í Reykjavík með tilheyrandi orkunotkun. Athyglisvert er að við arðsemisútreikninga virkjunarinnar var ekki lögð mikil áhersla á vaxtarmöguleika t.d. sjávarútvegsins, en sala á rafmagni til landbúnaðarframleiðslu á Suðurlandi talin góð tekjulind.
Þegar búið væri að ná góðum lánasamningum, hugðust Reykvíkingar leita tilboða í vélar og vinnu, þar sem hagstæðasta tilboði yrði tekið.
Fljótlega rákust sendimenn bæjarins á vegg. Erlendir bankar voru ekki tilbúnir að lána höfuðstað Íslands til virkjanaframkvæmda í miðri kreppu, nema mögulega á afleitum kjörum. Vonir um að hægt væri að fá lánað án ríkisábyrgðar (sem þýddi að leita á náðir Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni) voru skotnar samstundis í kaf. Án ríkisábyrgðar fengist ekki túskildingur með gati.
Lánsfjárleitin var komin í uppnám, þegar ákveðið var að skipta um strategíu. Með því að semja fyrst við vélaframleiðendur og verktaka, var hægt að fá viðskiptabanka þeirra til að lána fjármuni til verksins. Draumurinn um að hægt væri að fara í einfalt útboð og ganga að besta boði reyndist tálsýn. Þeir fengu verkið sem gátu sannfært bankann sinn um að taka þátt í dæminu.
Þetta var fyrir 75 árum og þegar ég skrifaði greinina fyrir tólf árum síðan taldi ég mig vera að lýsa löngu liðnum tíma. En svona getur sagan endurtekið sig.