Þegar Kínverjar keyptu gamla húsnæði Sjóklæðagerðarinnar undir sendiráð, mátti lesa víða á netinu fabúlasjónir um að hér væri eitthvað skrítið á ferðinni. Stærð nýja sendiráðsins var talin slík að það væri úr öllum takti við stærð Íslands – nema að e-ð skrítið væri á ferðinni. Í kjölfarið mátti lesa samsæriskenningar (einkum hægrinöttara á moggablogginu) um að Kínverjar ætluðu að sölsa undir sig Norður-Atlantshafið.
Í tengslum við viðskiptasamningana sem undirritaðir voru í gær (sjá eldra blogg) hefur mátt sjá skrif á þessum nótum víðs vegar á netinu. Þannig endurtekur Egill Helgason á síðu sinni fullyrðingarnar um að sendiráð Kínverja á Íslandi sé fram úr hófi stórt.
Þetta ýtti við mér að að reyna að finna upplýsingar um kínversk sendiráð og stærð þeirra um víða veröld. Það er ekkert gamanmál. Flest eða öll kínversk sendiráð hafa heimasíður, en þar virðist aldrei vera að finna neinar upplýsingar um stærð húsnæðis, starfsmannafjölda o.þ.h. Á hinum enskumælandi hluta internetsins gaf hr. Google nánast engar slíkar upplýsingar. Kínverjar eru ekkert að gaspra um svona tölur.
En það er sláandi hversu víða Kínverjar hafa sendiráð. Smáríkið Andorra tók stjórn utanríkismála í eigin hendur árið 1993. Sama ár opnuðu Kínverjar sendiráð í landinu. Mér sýnist stappa nærri því að Kína sé með sendiráð í hverju aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Það er bara spurning hvort Bandaríkjamenn eða Kínverjar eru með sendiráð víðar.
Þá sjaldan sem hægt var að finna góðar myndir af sendiráðshúsunum, virtust það vera reisulegar byggingar.
Fór í kjölfarið að skoða stöðu mála í öðrum Evrópulöndum. Á Kýpur, sem er fámennt eyríki (en þó vissulega fjölmennara en Ísland), starfrækja 31 erlent ríki sendiráð. Það er miklu, miklu meira en hér heima.
Við erum kannski ekki miðdepill alheimsins eftir allt saman…