Bækurnar Reykjavík: Sögustaður við Sund eftir Pál Lýðsson eru stórskemmtilegar og fræðandi. Þær eru þó um sumt sérviskulegar. Þannig hefur höfundurinn furðumikinn áhuga á götuheitum sem eiga sér samsvaranir í örnefnum. Allar reykvískar götur fá klausu í bókunum, þótt í sumum tilvikum segir þær ekki meira en í hvaða hverfi viðkomandi gata sé og hversu margir íbúar hafi búið þar smkv. íbúaskrá 1. desember 1985.
Mörg götunöfn eru eins og nöfn á íslenskum sveitabæjum eða öðrum kunnum stöðum. Þetta þótti Páli Líndal stórskemmtilegt. Þannig kemur hann því að í örstuttum kafla um göngustíginn Brákarsund í Sundahverfinu að slíkt sund megi finna í Borgarnesi, sbr. frásögnina af Þorgerði brák. Þarna er ekkert staðhæft um að nafngiftirnar tengist, þótt auðvitað hafi skipuleggjendum hverfisins mátt vera kunn sagan úr Eglu.
Á sömu blaðsíðu er fjallað um Brávallagötu. Þar upplýsir Páll að nafnið hafi verið samþykkt árið 1926 og „gæti verið dregið af Brávelli í Blekinge í Svíþjóð þar sem háður var Brávallabardagi er segir frá í Skjöldunga sögu.“ – Aftur er um vangaveltur Páls að ræða, þótt kenningin sé til muna langsóttari en í fyrra tilvikinu. Nöfnin í -vallagötuhverfinu eru augljóslega leidd af gamla Hólavallaörnefninu og svo skeytt við forskeytum (Há-, Sól-, Ljós- o.s.frv.) Ekki er augljóst hvers vegna starfsmenn bæjarskipulagsins ættu að hafa verið að hugsa um Skjöldungasögu.
En stundum gengur Páll lengra í staðhæfingum sínum. Um Bólstaðarhlíð er sagt að heiti hennar sé dregið af kirkjustaðnum Bólstaðarhlíð í Austur-Húnavatnssýslu. Barmahlíð er sögð heita eftir jörðinni í Austur-Barðastrandasýslu sem Jón Thoroddsen orti kvæðið fræga um. Álftamýri á samkvæmt þessu að draga nafn sitt gömlum kirkjustað, eyðibýli við norðanverðan Arnarfjörð og Dalsel í Breiðholti á sér fyrirmynd í Austur-Eyjafjallahreppi. Svona mætti lengi telja.
Ég hef alltaf verið smeykur við að treysta þessum hluta af annars ágætum bókum. Er trúlegt að reykvískir embættismenn hafi valið götuheiti út frá Íslandskorti eða skrám yfir gamla kirkjustaði. Það er ólíklegt, en svo sem ekki útilokað. Hvort eru það heimildirnar eða stílbrögðin sem ráða því hvenær Páll staðhæfir fortakslaust að þessi eða hin gatan heiti eftir stöðum úti á landi eða hinu, þegar hann bendir bara á líkindin?
Hverju skal nú trúa?