Svalur og geimverurnar

Langþráð sending barst í póstinum í dag frá Amazon. Nokkrar Svals og Vals-bækur sem vantaði nauðsynlega í safnið. Steinunn er dolfallin yfir nördaskap mínum, en reynir að láta ekki á neinu bera.

Því miður eru bækurnar á þýsku (reyndar í mjög vandaðri útgáfu). Ég hefði nú fremur kosið að fá þær á dönsku, en ýmist reyndust þær ófáanlegar á því máli eða svo brjálæðislega dýrar að það var ekki verjandi að kaupa þær.

Ég gat að sjálfsögðu ekki stillt mig um að sökkva mér strax oní eina bókina: Apfelwein für Xorien. Hún heitir á frummálinu Du cidre pour les étoiles sem líklega væri best að íslenska sem Eplavín fyrir geimverurnar – og fjallar um… geimverur sem eru sólgnar í eplavín.

Bókin er eftir Fournier og samin 1976 eða ´77, á milli Töfrafestarinnar frá Senegal og Móra. Þær bækur eru um margt svipaðar og því undarlegt að sjá svona gjörólíka bók á milli þeirra.

Almennt sér er ástæða til tortryggni þegar teiknimyndasöguhöfundar kynna til sögunnar krúttlegar geimverur. Ég verð enn reiður þegar ég hugsa út í Uderzo-bókina þar sem geimverurnar heimsóttu Ástrík og félaga í Gaulverjabæ. Það var langlélegasta Ástríks-bókin og ber Uderzo þó ábyrgð á miklu drasli eftir að hann fór að semja sögurnar sjálfur.

Þetta er eina Svals og Vals-bókin þar sem geimverur koma við sögu (ef við lítum ekki á Prumpdýrið í Tímavillta prófessornum sem geimkvikindi). Þetta eru krúttlegir litlir rauðir karlar með hendur, fætur og tvö augu. Þeir búa ekki yfir neinum sérstökum yfirnáttúrulegum kröftum en hafa yfir fullkominni tækni að ráða.

Sagan gerist öll í Sveppabæ eða á setir Sveppagreifans. Greifinn hefur komist í vinfengi við geimverur, sem illu heilli ánetjast eplavíni og stela því af bændunum í grenndinni. Þetta leiðir til árekstra við bændurna og bæjarbúa sem undir stjórn bæjarstjórans siga hernum á greifann. Þá koma til sögunnar leyniþjónustumenn frá ótilreindu útlandi sem vilja ræna geimverunum og/eða farartækjum þeirra. Allt fer þó vel að lokum.

Miðað við lýsinguna mætti ætla að bókin væri algjört flopp, en svo slæmt er það þó ekki. Sjálfur er ég hrifinn af Fournier og finnst hann alls ekki standa Franquin að baki. Húmorinn er ágætur (og skilar sér meira að segja í gegnum þýskuna). Plottið er þó hvorki fugl né fiskur, enda bókin hliðarspor frá metnaðarfyllri verkum Fourniers á seinni hluta áttunda áratugarins.