Jæja, þá er riðlakeppnin búin og alvara lífsins tekur við. Sú var tíðin að úrslitakeppni HM hafði bara sextán þátttökulið.
Í öllum aðalatriðum má segja að niðurstaða riðlakeppninnar hafi verið sanngjörn. Betri liðin í hverjum riðli komust áfram og þau lakari sátu eftir – hvað svo sem áætluðum styrk þeirra á pappírunum líður.
1. leikur, Uruguay : Suður Kórea
Uruguay-leikmennirnir eru stjörnur keppninnar til þessa. Frábærlega skipulagt lið með flinkum spilurum og Forlan í essinu sínu. Markatalan 4:0 er glæsileg eftir þrjá leiki. Andinn í liðinu virðist líka góður og ef frá er talinn vitleysisgangurinn í varamanninum Lodeiro, sem lét reka sig útaf fyrir aulaskap í Frakkaleiknum, hefur ekkert borið á óskynamlegum brotum eða agaleysi.
Suður Kórea í annarri stöðu. Markatala Asíuliðsins í riðlakeppninni var 5:6. Þetta er glúrið lið sem getur sótt hratt fram og nýtt sér veilur í varnarleik andstæðinganna. Ég yrði hissa ef þeir héldu hreinu í níutíu mínútur gegn Forlan, Suarez & kó. Verð fyrir miklum vonbrigðum ef Uruguay tryggir sér ekki sæti í fjórðungsúrslitum í fyrsta sinn frá 1970 á morgun.
2. leikur, Argentína : Mexíkó
Þegar Mexíkóar/Mexíkanar (eftir því hvort menn treysta frekar málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins eða Kötlu Maríu) mættu Uruguay í lokaleik riðlakeppninnar, var síðarnefnda liðið í þeirri stöðu að duga jafntefli. Mexíkó þurfti hins vegar að sækja, til að vera visst um að komast áfram. Lítið fór fyrir slíkum tilburðum.
Argentína er vinsælasta stúlkan í keppninni. Fótboltanirðirnir á 200% eru meira að segja farnir að kvarta undan Argentínu-fárinu í Bretlandi (sem miðað við aldur og fyrri störf má teljast álíka óvænt og ef Halim Al-fár brytist út á Íslandi). Stemningin er dáldið á þá leið að fólk krefst þess að Argentina skori fjögur mörk í hverjum leik, þar af Messi þrjú. Þeir verða þó ekki í vandræðum með Mexík… (æ, þið vitið) sem veðja helst á að Blanco geri einhverjar rósir. Allir aðrir sjá að hann ætti fyrir löngu að vera arinn í límverksmiðjuna.
3. leikur, Bandaríkin : Ghana
Ó, hvað það munaði litlu að svartsýnisspá mín um Afríkulaus 16-liða úrslit rættist. Ekki var það þó glæsilegt. Frá því að 32 liða HM var tekin upp 1998 hefur það aðeins tvisvar gerst að lið hefur komist upp úr riðlakeppninni með því að skora bara tvö mörk. England 2002 og Ghana núna.
Bandaríkin hafa hins vegar átt fínt mót. Ég hef í mörg ár bent á að Bandaríkjamenn séu kerfisbundið vanmetnir í alþjóðaboltanum. Evrópa og Suður-Ameríka lítur niður á Bandaríkin sem ruðnings- og körfuboltasamfélag. Fyrir vikið horfa menn fram hjá góðum árangri þeirra í alþjóðakeppni og oft sterkri stöðu á FIFA-listanum. Að þessu sinni veittu fæstir því athygli að Bandaríkin léku vel í sínum riðli, vegna þess að fjölmiðlarnir voru svo uppfullir af því að gapa yfir óförum Englendinga.
Þrátt fyrir allan þennan inngang, þá hallast ég hálfpartinn að því að Ghana eigi eftir að girða sig í brók og stela sigrinum – Ármanni Jakobssyni til sárrar skapraunar. (Hann er harðasti og raunar eini stuðningsmaður BNA sem ég þekki.)
4. leikur, England : Þýskaland
Þetta endar í vítakeppni og vitum öll hvernig það fer…