Lokum Borgarvefsjánni!

Í dag var gamli MorfÍs-uppeldissonur minn Lárus Páll Birgisson (Lalli sjúkraliði) fyrst borinn yfir Laufásveginn af lögreglunni og síðan handtekinn fyrir að trítla aftur yfir götuna og setjast á ný fyrir framan bandaríska sendiráðið með spjald með slagorðum gegn stríðsrekstri. Á dögunum var Lalli dæmdur í héraðsdómi fyrir að hafa á sama hátt neitað að fara eftir fyrirmælum lögreglu og fara af sömu gangstétt síðasta vetur. Þeim dómi verður að áfrýja.

Ég sló fyrr í dag á þráðinn til sjúkraliðans sem risaveldið óttast svo mjög og spurði út í handtökuna. Þar kom fram að líkt og í málinu sem hann var dæmdur fyrir, var atvikið fest á filmu. Starfsmenn sendiráðsins urðu hinir æstustu yfir myndatökunni og kröfðust þess að filman yrði gerð upptæk. Lögreglan ætlaði að verða við þeirri bón, en hætti við þegar fjölmiðlamenn mættu á svæðið.

Og með hvaða rökum skyldu mennirnir vilja láta banna fólki að taka myndir af götumyndinni við Laufásveg og umhverfi sendiráðsins? Jú, það er gert til að tryggja öryggi borgaranna. Ef hryðjuverkamenn kæmust yfir myndir af gangstéttinni fyrir framan sendiráðið, þá gætu þeir notað þær til að koma fyrir sprengjum sem aftur kynnu að skaða fólkið í götunni…

Jahá!

Það er gott að þessar upplýsingar hafi komið fram um bráða lífshættu íbúanna við Laufásveg. Væntanlega kallar þetta á sólarhirngslögregluvörð (einkum nú yfir háferðamannatímann) til að koma í veg fyrir að Laufásvegurinn verði festur á filmu. Og ekki er síður brýnt að loka Borgarvefsjánni – eða í það minnsta passa að blörra út Laufásveginn og nágrenni. Ég sé ótal verkefni fyrir starfsmenn greiningardeildar Ríkislögreglustjóra í þessu. Spurning um að splæsa í aukastöðugildi?