Áhugamönnum um enska boltann á níunda áratugnum ætti að hlýna um hjartarætur við að skoða stigatöfluna í utandeildinni (sem ég ætti líklega hér eftir að kalla 5. deildina – því hún er vissulega sú fimmta efsta í enska knattspyrnupíramídanum.) Luton er nefnilega efst og Wimbledon í öðru sæti. Þetta eru einu liðin sem unnið hafa báða sína leiki í fyrstu tveimur umferðunum.
Andstæðingar Luton í þessum leikjum hafa svo sem ekki verið neinir stórspámenn: Altrincham og Kettering. En á hitt ber að líta að í fyrra fengum við bara eitt stig gegn hvoru þeirra.
Á pappírunum er Luton með sterkasta leikmannahópinn. Þetta er líka langteknískasta liðið í deildinni. Um það er ekki deilt. Vandinn er hins vegar að flest hin liðin eru nógu skynsöm til að bregðast við þessum með því að pakka í vörn og vonast til að þvæla inn eins og einu marki úr föstu leikatriði eða skyndisókn. Og það er vissulega áhyggjuefni að í báðum leikjunum höfum við fengið á okkur jöfnunarmörk eftir að hafa ráðið lögum og lofum.
Í kvöld sigruðum við Kettering á útivelli 1:3, þar sem Luton átti 17 markskot en heimaliðið fjögur. Matthew Barnes-Homer skoraði þrennu (en reyndar tvö úr vítum). Hann átti svo sigurmarkið á 88. mínútu í fyrstu umferðinni.
Matthew Barnes-Homer (eða MBH eins og hann er oftast kallaður) er þess vegna nýja hetjan í klúbbnum. Það er þeim mun merkilegra í ljósi þess að fyrir hálfu ári var hann hataður. Hann fékk endalausa sénsa í liðinu, óð í færum en skoraði ekki rassgat. Stuðningsmennirnir bauluðu á hann og spjallborðin voru full af formælingum. En svo dó pabbi hans.
Daginn sem pabbi MBH dó (eða hvort það var daginn eftir), ákvað strákurinn að halda sínu striki og lék deildarleik. Að venju var baulað á stráksa, sem átti enn einn slakan daginn. En eftir leik kvisuðust út fréttirnar af dauða pabbans, sem hafði víst barist við erfitt krabbamein í einhverja mánuði. Og sagan bræddi hjörtu allra. Skyndilega varð MBH að táknmynd félagstryggðar og æðruleysis. Eftir á að hyggja fannst mönnum þeir sjá skýringarnar á slakri spilamennsku – óharðnaður unglingurinn hefði verið að reyna að fóta sig hjá nýju liði á sama tíma og hann var að missa pabba sinn… Og þegar MBH skoraði mikilvægt mark skömmu síðar, varð hann að eftirlæti allra. (Knattspyrnuáhagendur eru mjög gefnir fyrir melódrama.)
Núna leikur MBH eins og hugur manns. Stuðningsmennirnir elska hann og dásama snilld stjórans, Richard Money. Lengi lifi gullfiskaminnið!