Um daginn fékk ég vænan bókapakka frá Amazon, sem einkum hafði að geyma bækur um sögu fótboltans í ýmsum löndum. (Kannski maður ætti að bjóða upp á námskeið hjá Endurmenntun HÍ um fótboltasögu við tækifæri?) Minnsta bókin í bunkanum fékk að fljóta með í bríiaríi, þar er stutt saga fyrstu heimsmeistarakeppninnar í fótbolta – Uruguay 1930.
Bókin heitir Four Weeks in Montevideo og er eftir Hyder Jawad, sagnfræðing frá Birckbeck-háskóla sem sérhæft hefur sig í sögu knattspyrnunnar. Hún er í einu orði sagt frábær.
Tildrög bókarinnar eru reyfarakennd – og minna raunar frekar á lélegt bíómyndaplott. Á lokadegi heimsóknar sinnar til Montevideo í Uruguay fyrir um áratug, rekst Jawad á minjagripasala sem hefur á boðstólum aðgöngumiða frá HM 1930. Jawad er safnari og þekkir vel verðgildi miðana en þráttar samt við sölumanninn og kaupir þá á undirverði.
Að viðskiptunum loknum upplýsir seljandinn að miðarnir séu úr fórum föður síns sem hafi horft á alla leiki keppninnar. Sá gamli sé ágætlega ern og hefði gaman af að taka á móti enskum gesti. Sagnfræðingurinn lætur til leiðast og heldur á fund gamla mannsins. Sá reynist ástríðufullur fótboltaáhugamaður og það sem meira er – mánuðinn sem HM í Uruguay fór fram hélt hann dagbók á lýtalausri ensku þar fjallað var um sérhvern leik, stemninguna í borginni o.s.frv. Þessar dagbókarfærslur ganga eins og rauður þráður í gegnum bókina og gefa einstakar augnabliksmyndir af knattspyrnumóti sem ruddi brautina fyrir helstu íþróttakeppni heims.
Auðvitað hefur maður lesið helling um HM 1930. Óteljandi yfirlitsrit hafa komið út um sögu HM í fótbolta og einhvern veginn hlýtur fyrsta keppnin alltaf að hafa sérstaka stöðu. Með öllum þessum yfirlitsritum er búið að slípa til nokkuð staðlaða opinbera útgáfu af sögunni, sem fótboltanördar af öllum aldri hafa tileinkað sér í aðalatriðum.
Ég lofaði Illuga Jökulssyni á Fésbókinni um daginn að blogga um það sem mér þætti forvitnilegast í bókinni. Þetta er fyrri færslan um málið:
Okkur er tamt að hugsa um HM 1930 sem fyrstu heimsmeistarakeppnina og því smkv. skilgreiningu velheppnaða tilraun til að koma á alþjóðlegri knattspyrnukeppni landsliða. Á sínum tíma var þessi túlkun ekki jafnaugljós. Aðstandendur keppninnar báru sig vel, en voru í raun miður sín yfir að Evrópa skrópaði nánast eins og hún lagði sig á HM. Hálft í hvoru fannst mönnum keppnin því vera flopp og voru raunar efins um að tilraunin yrði endurtekin.
Egyptar ætluðu að taka þátt en misstu af skipinu til Suður-Ameríku. Evrópuliðin voru bara fjögur. Belgar og Frakkar sendu lið (sem í tilviki Frakka amk var aðeins úrval áhugamanna) – og það fyrst og fremst fyrir þrábeiðni formanns og varaformanns FIFA sem voru frá þessum löndum. Rúmenar voru með vegna þess að Carol II Rúmeníukóngur var íþróttanöttari og gerði það að fyrsta verki sínu eftir valdatöku að senda lið til Uruguay fyrir eigin reikning. Júgóslavía var nýgengin inn í FIFA og tók þátt (líka fyrir áeggjan Carols II), en þegar á hólminn var komið neituðu Króatarnir og Slóvenarnir að vera með – svo í raun var þetta landslið Serbíu.
Skipuleggjendur mótsins vissu í raun ekki nákvæmlega hversu mörg þátttökuliðin yrðu fyrr en viku eða svo áður en allt átti að hefjast. Þá fyrst var tekin ákvörðun um keppnisfyrirkomulag. Niðurröðun leikjanna var af fingrum fram og tók ekki hvað síst mið af því að aðalleikvangur keppninnar (sem átti upphaflega að hýsa hvern einasta leik) var ekki tilbúinn fyrr en tæp vika var liðin af keppninni.
Átta leikir voru búnir af mótinu þegar aðalleikvangurinn var loks tekinn í notkun 18. júlí á 100 ára afmælisdegi Uruguay. Þá léku heimamenn sinn fyrsta leik og haldin var setningarathöfn þar sem öll þátttökulið gengu inn á völlinn undir fánum sínum – þótt sum þeirra væru raunar þegar fallin úr keppni.
Skipulagsleysið og ruglið var allsráðandi. Þannig var alltaf bara leikinn einn leikur í einu, nema fyrsta daginn þar sem leikur Bandaríkjanna og Belgíu fór fram á sama tíma og leikur Frakka og Mexíkó. Fyrrnefndi leikurinn vakti meiri áhuga heimamanna og var því skilgreindur sem upphafsleikur. Þangað mættu fyrirmennin og þar voru fluttar ræður. Fyrir vikið tafðist leikurinn og því voru Frakkar og Mexíkóar búnir að spila í kortét áður en “fyrsti leikur” HM hófst.
Í einni viðureigninni höfðu starfsmenn vallarins klúðrað merkingum svo illilega að vítapunkturinn var þriðjungi lengra frá markinu en reglur sögðu til um. Í leik Frakka og Argentínu var flautað til leiksloka á 84.mínútu þegar Frakki var kominn einn í gegn og hefði getað jafnað. Það tók mikla reikistefnu að fá lokamínúturnar spilaðar. Margt í dómgæslunni var eftir þessu – enda valið á þeim tilviljanakennt. Þannig voru tveir þjálfarar keppnisliða á HM virkjaðir í dómgæslu á mótinu.
Það var ekki síður áhugavert að rýna í áhorfendatölurnar. Til eru tvennar tölur um áhorfendur á hverjum leik. Annars vegar opinberu tölur skipuleggjenda mótsins, sem ljúga mætinguna stórkoslega upp. Hins vegar tölur sem rannsóknarnefnd á vegum FIFA ákvað miklu síðar. Þær tölur eru ansi lágar – og líklega of lágar í mörgum tilvikum. Munurinn á þessum tölum getur verið tífaldur og jafnvel meiri. Eftir stendur að áður en aðalleikvangurinn var tilbúinn og Uruguay hóf keppni í mótinu, þá hafði áhugi almennings verið afar takmarkaður. Uruguaybúar héldu með sínu landsliði – og í minna mæli með þeim löndum sem voru duglegust við að sleikja þá upp.
Sleikjulegasta þjóðin var Bólivía. Hún naut mikilla vinsælda fyrir að mæta og taka að sér að vera fallbyssufóður. (Landslið Bólivíu hafði leikið sjö leiki í sögu sinni og tapað þeim öllum.) Ekki jók á virðingu þeirra að helmingur leikmanna lék með alpahúfur. Trixið sem bræddi heimamenn var hins vegar þegar leikmenn Bólivíu komu inn á völlinn, hver með sinn bókstafinn letraðan á brjóstkassann. Þegar þeir röðuðu sér allir upp kom hins vegar í ljós upphrópunin: Viva Uruguay.
Athyglisvert er að þegar dregið var í riðlana, var styrkleikaraðað. Fimm lið voru sett í fyrsta styrkleikaflokk: Uruguay, Argentína, Brasilía, Paraguay og Bandaríkin. Tvö síðastnefndu lentu svo saman í riðli. Menn litu því aldrei svo á að Evrópuliðin ættu minnsta séns – þótt Frakkarnir og Júgóslavarnir ættu eftir að láta til sín taka.