Hjónaband/vistarband

Fréttin af brasilísku konunni sem stugga á úr landi eftir að hún skildi við eiginmann sinn er ömurleg.

Sjálfur kannast ég við konu sem var í sömu stöðu. Hún giftist íslenskum manni, eignaðist með honum barn og bjó sér heimili á Íslandi. Hún kepptist við að læra tungumálið, réð sig í vinnu og plumaði sig vel.

Hjónabandið fór ekki eins vel. Það varð fljótlega ástlaust – eins og gengur. Ekki það að karlinn hafi verið neitt fúlmenni, ofbeldismaður eða annað slíkt – hann var bara venjulegur labbakútur og þetta gekk ekki upp… svona eins og gengur. Fljótlega var hún komin í þá stöðu að telja niður árin þangað til hún fengi ríkisborgararétt til að geta slitið hjónabandinu án þess að eiga það yfir höfði sér að vera vísað úr landi.

Það gerist varla ömurlegra.

Nú geri ég mér grein fyrir því að skoðanir fólks á því hversu opið Ísland skuli vera fyrir fólki frá öðrum heimshlutum eru skiptar. Sumir vilja opna landamærin til fulls – aðrir halda þeim sem lokuðustum. Gott og vel, um þetta má þá rífast fram og til baka…

En er ekki óhætt að slá því föstu að þorri Íslendinga vilji að það fólk sem hefur af margvíslegum og ólíkum orsökum lent hér á skerinu, búið sér heimili, unnið hér um árabil og eignast vini eða jafnvel fjölskyldu – fái að búa hér áfram? Í alvöru talað, eru það meira en 10-15% landsmanna sem styðja það í raun og veru að útlendingar sem búa hér og starfa séu sendir úr landi vegna þess að þeir skilja við maka sinn eða eru á launatöxtum sem ná ekki viðmiðunum Útlendingastofnunar? Ég vil a.m.k. trúa því að svo sé ekki.

Og ef þetta er vilji þjóðarinnar – hver er þá tilgangurinn með því að benda á að reglurnar séu eins og þær eru og stundum sé heimurinn ósanngjarn? Er þá ekki einfaldlega málið að gera undantekningar frá reglunum og breyta þeim svo í samræmi við vilja fólksins og stefnu ráðandi stjórnmálaafla? Gengur pólitík ekki einmitt út á það?